Rannsókn hafin á árásinni

Töluverður viðbúnaður var á vettvangi.
Töluverður viðbúnaður var á vettvangi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Að minnsta kosti sex manns þurftu aðstoð á slysadeild eftir að átök brustu út innan veggja Borgarholtsskóla rétt fyrir klukkan eitt í dag. Í tilkynningu frá lögreglu segir að upplýsingar um meiðsli liggi ekki fyrir en rannsókn málsins er á frumstigi.

Myndband hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum af einstaklingi með hafnaboltakylfu sem veitist að nemendum og starfsfólki Borgarholtsskóla. Töluverður viðbúnaður var við Borgarholtsskóla að sögn lögreglu og var sérsveit send á vettvang. Nemendum og starfsfólki er mjög brugðið.

Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla, segir atburði dagsins þá alvarlegustu sem upp hafa komið  í íslensku menntakerfi. Hann fundaði með starfsfólki skólans eftir atburðarásina og veitti mbl.is viðtal í kjölfarið. Að hans sögn eru þeir sem standa að baki árásinni ekki nemendur skólans.

„Það eru að sjálfsögðu bara allir hér í áfalli eftir svona árás,“ segir Ársæll spurðum um líðan starfsmanna og nemenda.

„Já, ég hef verið hátt í 30 ár í framhaldsskólum og ég held að þetta sé það alvarlegasta sem hefur komið upp gagnvart þessari íslensku lýðræðishefð og bara ungu fólki almennt.“

Ársæll bætir við að skólanum hafi verið lokað eftir að nemendur voru sendir heim. Hins vegar opnar skólinn að nýju á morgun samkvæmt stundaskrá svo halda megi skólastarfi áfram. Boðið verður upp á áfallahjálp.

Hræðsla greip um sig

Ebba Magnúsdóttir, nemandi í Borgarholtsskóla, sagði við mbl.is fyrr í dag að hún hafi verið hrædd og að mikið hafi gengið á.

„Við vor­um bara inni í stofu í há­deg­is­mat og þá sáum við strák sem labbaði fram hjá stof­unni okk­ar fram og til baka og hann var blóðugur. Ég frétti að það hafi verið eft­ir að ljósa­peru var kastað í haus­inn á hon­um. Stuttu seinna fyllt­ist allt af lög­reglu­mönn­um,“

„Nem­end­um var gert að sitja inn í stof­um og var verið að rýma alla ganga. Okk­ur var svo hleypt út í holl­um og gert að fara heim þar sem all­ir tím­ar falla niður eft­ir há­degi. Þá voru lög­regl­ur með skjöld og sér­sveit­in var þarna og mikið af lög­regl­um, sjukra­bíl­um og slökkviliðsbíl­um,“

„Það voru nátt­úru­lega all­ir mjög for­vitn­ir um það sem var að ger­ast en svo voru líka all­ir mjög hrædd­ir, sendu vin­um sín­um skila­boð og spurðu hvort það væri allt í lagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert