Sá brosin í augum fólks við opnunina

Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar.
Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ágústa Johnson framkvæmdastjóri Hreyfingar segir að það hafi verið dásamlegt að opna dyr heilsuræktarstöðvarinnar aftur fyrir viðskiptavinum. Þó allir séu með andlitsgrímur á göngum stöðvarinnar sjái hún brosin augum fólks yfir því að geta aftur hreyft sig í heilsuræktarstöð. 

Heilsuræktarstöðvum var heimilað að opna dyr sínar á ný í dag eftir nokkurra mánaða lokun vegna Covid-19. Þó eru mikil takmörk sett á starfsemi þeirra og einungis hóptímar leyfðir.

„Það var bara alveg dásamlegt, ótrúlega skemmtilegt og bara búið að ganga mjög vel,“ segir Ágústa, spurð hvernig hafi verið að fá loks að opna.

„Það eru margir komnir með leið á því að vera einhversstaðar einn heima að æfa. Hérna á göngunum eru allir með grímu en maður sér brosið í augunum á fólki, það fer ekki fram hjá manni.“

„Það er hægt að leysa allt“

Aðspurð segir Ágústa að þær reglur sem líkamsræktarstöðvum eru settar, til dæmis fjöldatakmörk í tíma, reglur um sótthreinsun og fleira, séu ekki flóknar í framkvæmd. 

„Það er hægt að leysa allt. En auðvitað hlökkum við bara til þegar öllum hömlum er aflétt og starfsemin getur orðið eðlileg.“

Spurð hvernig greiðslum verði háttað, nú þegar einungis hóptímar séu í boði segir Ágústa: 

„Við höfum enn ekki rukkað neitt fyrir janúar en síðan verðum við bara að sjá hvernig staðan þróast. Fólk var almennt búið að greiða fyrir fram þegar við lokuðum þannig að það á einhverja inneign hjá okkur. Síðan kemur í ljós á næstu dögum og vikum hvernig þetta mun þróast og hvernig leysist úr þessu. Við erum náttúrulega með mikið af fjölbreyttum hóptímum sem flestir geta nýtt sér, hvort sem þeir eru að sækjast eftir bættu þoli eða auknum styrk.“

mbl.is