Starfsfólk hjartadeildar klætt í „herklæðnað“

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hluti starfsfólks hjartadeildar Landspítala var skimaður í gær og fram á nótt vegna smits sem kom upp hjá sjúklingi. Öll sýnin hafa reynst neikvæð hingað til. Starfsfólk deildarinnar er ekki í hefðbundinni sóttkví heldur sóttkví B og sinnir vinnu sinni í hlífðarfatnaði. 

Þetta staðfestir Stefán Hrafn Hagalín, deildarstjóri samskiptadeildar Landspítala, í samtali við mbl.is.

Í gær voru einnig 32 inniliggjandi sjúklingar skimaðir fyrir veirunni og reyndist enginn þeirra smitaður.

Sýnataka starfsfólks heldur áfram nú fyrir hádegi. Um nokkur hundruð manns er að ræða að öllu samanlögðu. Bæði þarf að skima alla rúmlega 100 starfsmenn deildarinnar og annað starfsfólk sem þjónustar sjúklinga og starfsemi deildarinnar, til dæmis sjúkraþjálfara og ræstingafólk. 

Starfsfólk í vinnusóttkví B

Deildin er lokuð fyrir nýjum innlögnum en er annars í fullri starfsemi. Starfsfólk hennar er því ekki í hefðbundinni sóttkví.

„Núna er bara búið að loka deildinni og allt starfsfólk er komið í herklæðnað og sinnir þessu í svokallaðri vinnusóttkví B þannig að það gengur til sinna starfa en með öðrum hætti. Allt gallað upp,“ segir Stefán. 

Ekki er vitað hvort sá smitaði, sem nú er útskrifaður, hafi deilt herbergi með öðrum né hvernig hann smitaðist. 

„Umfangsmikið viðbragð er á spítalanum gagnvart þessum atburðum og vert að minna á að hjartadeildin er í fullri starfsemi og er vel mönnuð, henni hefur ekki verið lokað fyrir öðru en nýjum innlögnum,“ segir í fréttatilkynningu frá Landspítala. 

Fyrstu niðurstöður úr skimunum dagsins í dag verða ljósar um hádegisbil. 

Fréttin hefur verið uppfærð með nánari upplýsingum frá deildarstjóra samskiptadeildar Landspítala.

mbl.is