Þórunn hættir á þingi

Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknar, á þingsetningu 2018. Þórunn klæðist ávallt …
Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknar, á þingsetningu 2018. Þórunn klæðist ávallt upphlut við þingsetningu og segir hana hátíðlega athöfn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknar, gefur ekki kost á sér á lista Framsóknarflokksins fyrir alþingiskosningar í haust. Hún mun einhenda sér í baráttu við krabbamein sem hún greindist óvænt með skömmu fyrir jól. Þetta kemur fram í yfirlýsingu á facebooksíðu Þórunnar rétt í þessu. 

Þórunn er oddviti Framsóknar í Norðausturkjördæmi, þingflokksformaður og formaður samgönguráðs. 

Meinið hefur tekið sig upp að nýju en brýnt er að vera bjartsýn. Maður verður alltaf að horfa fram á við. Og maður má aldrei missa vonina. Aldrei. Framboð til Alþingis verður hins vegar að bíða betri tíma. Ég mun því ekki gefa kost á mér til að leiða lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í komandi alþingiskosningum,“ skrifar Þórunn. 

Þórunn glímdi við brjóstakrabbamein fyrr á þessu kjörtímabili og var frá þingstörfum í rúmt ár. Hún sneri til vinnu í vor eftir að hafa náð bata. 

Í aðdraganda jóla greindist svo krabbamein í lifur Þórunnar og starfaði lifrin að mjög litlu leyti. Meðferð við krabbameininu hófst annan í jólum.

Keik vil ég mæta þessu verkefni eins og öðrum. Læknunum treysti ég til að lækna mig og mitt er að sjá um að hafa hausinn rétt skrúfaðan og horfa fram á við,“ sagði Þórunn í tilkynningu þegar hún greindi frá veikindum sínum.

mbl.is