Um 1.600 manns skráðir til æfinga

Um 1.600 manns eru skráðir til æfinga í Sporthúsinu í Kópavogi í dag. Eingöngu er boðið upp á skipulagða tíma og þarf hver og einn sem mætir að gefa upp persónupplýsingar og hvernig hægt er að hafa samband við hann. Fólk mætti til æfinga í morgun eftir langt hlé og mbl.is var á svæðinu.

Þröstur Jón Sigurðsson, eigandi líkamsræktarstöðvarinnar, var að vonum ánægður með að geta opnað að nýju eftir lokunina í byrjun október en takmarkanirnar eru þó miklar. Á venjulegum degi í janúar, sem vanalega er háannatími í geiranum, væru um 5-5500 manns við æfingar í Sporthúsinu yfir daginn. Þá er búið að hólfa stöðina rækilega niður og viðskiptavinir geta ekki nýtt sér sturtuaðstöðuna. 

Í myndskeiðinu er kíkt á æfingar sem byrjuðu í morgun og rætt við Þröst Jón sem hefur haft í nægu að snúast að undanförnu við utanumhald tengt sóttvörnum og lokunum enda er flókið mál að útfæra áskriftarfyrirkomulag fyrir þúsundir viðskiptavina í miðjum heimsfaraldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert