Um mikla skerðingu sé að ræða

Landssamband Framsóknarkvenna lýsir í yfirlýsingu yfir áhyggjum vegna þeirra breytinga sem tóku gildi um síðastliðin áramót um skimun fyrir brjósta- og leghálskrabbameini.

Með breytingunum er konum á aldrinum 50-74 ára boðið í skimun fyrir brjóstakrabbameini en áður var konum frá 40 ára aldri boðið í þá skimun.

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein hjá konum hér á landi. Að meðaltali greinast 210 konur árlega samkvæmt upplýsingum frá Landlækni. Á árunum 2015 til 2019 greindust árlega að meðaltali 31 kona á aldrinum 40-49 með brjóstakrabbamein.

Þær breytingar á skimun fyrir leghálskrabbameini sem tóku gildi um áramótin eru að nú er konum á aldrinum 30-59 ára boðið í skimun á fimm ára fresti í staðinn fyrir á þriggja ára fresti eins og áður var.

Auk þess verða konur á aldrinum 60-65 ára útskrifaðar úr skimun fyrir leghálskrabbameini ef HPV sýni verður neikvætt.

„Um er að ræða mikla skerðingu á þessari mikilvægu þjónustu fyrir konur,“ segir í yfirlýsingu Landssambands Framsóknarkvenna. Sambandið áréttar að „innköllunarkerfi er gríðarlega mikilvægt til að hvetja konur til að fara reglulega í skimun í forvarnarskyni og með því að lengja bilið á milli skimana og með hækkun á lágmarksaldri kvenna er sú hætta fyrir hendi að tíðni krabbameins aukist hjá konum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert