„Upplifa að það sé verið að sniðganga þær“

Árlega greinast 210 konur með brjóstakrabbamein á Íslandi og er …
Árlega greinast 210 konur með brjóstakrabbamein á Íslandi og er það algengasta krabbamein sem greinist hjá konum hér á landi. Ljósmynd/Krabbameinsfélagið

Framkvæmdastjóri Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk með krabbamein, harmar það að ekkert samráð hafi farið fram áður en aldursmörkum kvenna sem boðaðar eru í krabbameinsskimun hafi verið breytt. 

Um ára­mót­in hækkuðu ald­urs­mörk­un úr 40 ára aldri í fimm­tugt, en ásamt þeirri breyt­ingu færðust skiman­ir fyr­ir brjósta- og leg­hálskrabba­meini úr hönd­um Krabba­meins­fé­lags­ins til hins op­in­bera. 

Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts, segir að breytingarnar hafi komið henni í opna skjöldu. 

„Þessar breytingar hafa bara komið aftan að okkur og það hefur lítið samráð verið haft við almenning og konur í landinu um þessar breytingar sem varða okkur öll,“ segir Hulda. 

„Þetta varðar auðvitað fyrst og fremst þessar ungu konur sem er ekki verið að fara skima samkvæmt þessum breytingum. Við höfum verið að krefjast svara og frekari upplýsinga um málið og í rauninni líka þess að það sé opið samtal um þetta. Forsendan fyrir því að skimun gangi er að konur taki þátt svo þetta þarf að vera í góðu samtali við konur í landinu,“ segir Hulda. 

„Þetta vekur hjá þessum ungu konum sem hafa verið að greinast ugg og þær upplifa að það sé verið að sniðganga þær. Það er alvarlegt mál útaf fyrir sig, að þessar breytingar séu bara drifnar í gegn án þess að það sé eitthvað samtal í samfélaginu.“

Sniðgangi ráðleggingar fagráðs 

Hulda segir að Kraftur og Krabbameinsfélagið hafi óskað eftir opnum upplýsingafundi við stjórnvöld, en engin viðbrögð fengið. Hún segir mikilvægast að gerð verði grein fyrir ástæðum þeirrar breytinga sem hafa orðið. 

Þá gagnrýnir Hulda að ráðleggingar fagráðs um brjóstakrabbameinsskimun, hafi verið sniðgengnar. 

Fagráð um brjóstakrabbamein sem var sett saman af heilbrigðisráðuneytinu og evrópskar leiðbeiningar ráðleggja að skimun hefjist við 45 ára aldur. Það er í raun verið að fara hjá þeim ráðleggingum og ákveðið engu að síður að þetta hefjist við fimmtíu ár. Við spyrjum okkur af hverju það hafi verið gert,“ segir Hulda. 

Rúmlega 30.000 ein­stak­ling­ar hafa þegar skrifað und­ir áskor­un til stjórn­valda um að leiðrétta breyt­ingu á ald­urs­mörk­um kvenna sem boðaðar eru í krabba­meins­skimun. 

Kraftur gaf í dag út eftirfarandi yfirlýsingu: 

Í ljósi nýlegra breytinga á brjóstaskimun kvenna sendir Kraftur, félag ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

Þann 1. janúar 2021 tóku gildi breytingar er varða það aldursbil kvenna sem boðið verður í reglubundna brjóstaskimun. Í breytingunum fólst að aldursbilið, sem var 40-69 ára, er nú 50-74 ára. Á sama tíma og stjórn Krafts fagnar því að konum sé boðið í skimun til 74 ára aldurs, þá harmar stjórn það mjög að landlæknir og skimunarráð hafi vikið frá bæði evrópskum leiðbeiningum sem og áliti fagráðs um brjóstakrabbamein sem hvoru tveggja leggja til að skimun hefjist við 45 ára aldur. Stjórn Krafts furðar sig ennfremur á því að ákvörðun sem þessi sé tekin án þess að henni fylgi greinargóður rökstuðningur.

Stjórn Krafts vill ítreka þá kröfu að haldinn verði opinn fundur með þeim aðilum sem að þessari ákvörðun komu, þar sem þeim myndi gefast tækifæri til að rökstyðja þessar breytingar. Kraftur, félag ungra krabbameinsgreindra og aðstandenda þeirra, beinir þeirri kröfu til stjórnvalda að ákvarðanir sem geta haft verulega neikvæðar afleiðingar fyrir líf fólks séu teknar á skýrum og vísindalegum grunni. 

Fyrir hönd stjórnar Krafts, 

Elín Sandra Skúladóttir,  formaður 

mbl.is