Veitingastaðir skora á stjórnvöld

Aðilar í veitingabransanum draga upp dökka mynd og skora á …
Aðilar í veitingabransanum draga upp dökka mynd og skora á stjórnvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Samtök fyrirtækja í veitingaþjónustu hafa sent frá sér tilkynningu til fjölmiðla þar sem skorað er á stjórnvöld að koma til móts við rekstraraðila í veitingaþjónustu, vegna bágrar stöðu í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Í tilkynningunni segir að veitingastöðum blæði hratt og örugglega út og að skilningsleysi stjórnvalda sé algjört.

Í tilkynningunni segir jafnframt að fjölmörg fyrirtæki hafi þegar hætt rekstri og að margir séu á „ystu nöf“. Þá segir að SFV sjái engin haldbær rök fyrir því ósamræmi sem birtist í takmörkunum á veitingastöðum og krám annars vegar og verslunum og leikhúsum hins vegar.

SFV gerðu könnun meðal félagsmanna sinna og helmingur 100 svarenda sagðist ekki sjá fram á að ná að halda áfram rekstri út febrúarmánuð þessa árs. 

Skorað er á stjórnvöld um:

  • Að hámarksfjöldi viðskiptavina verði hækkaður í 50 manns líkt og hjá verslunum
  • Að afgreiðslutími veitingastaða verði til kl. 23.00
  • Að kráir og barir fái að starfa skv. sömu skilmálum og veitingastaðir
  • Að hið opinbera hjálpi endurreisn veitingageirans með skattaívilnunum í framtíðinni með tímabundinni endurgreiðslu virðisaukaskatts í tólf mánuði, frá júlí 2021 til júlí 2022, til að aðstoða greinina til viðspyrnu eftir þessa erfiðu tíma.
mbl.is