Verslunarmiðstöð lokað eftir sóttvarnarbrot

Verslunarmiðstöðin Molinn á Reyðarfirði.
Verslunarmiðstöðin Molinn á Reyðarfirði. mbl.is/Steinunn

Lögreglan á Austurlandi lokaði í gær verslunarmiðstöðinni Molanum á Reyðarfirði vegna gruns um brot á sóttkví. Samkvæmt upplýsingum frá verslunarstjóra Veiðiflugunnar sem er ein verslunin í Molanum er um að ræða tvo einstaklinga sem nýlega komu til landsins sem sagðir eru brotlegir.

Austurfrétt sagði fyrst frá málinu

Björgvin Pálsson, verslunarstjóri Veiðiflugunnar segir að einstaklingarnir hafi þekkst þar sem um sé að ræða lítið samfélag. Vitað hafi verið að þeir hafi nýlega komið til landsins. 

„Húsið var bara lokað einn, tveir og bingó. Svo var haft samband við lögreglu og öll neðri hæð hússins sótthreinsuð,“ segir Björgvin. Hann segir að lögreglu hafi verið veittur aðgangur að öryggismyndavélum til þess að skoða ferðir fólksins í Molanum. 

Björgvin Pálsson, verslunarstjóri Veiðiflugunnar.
Björgvin Pálsson, verslunarstjóri Veiðiflugunnar. mbl.is/Golli

Að sögn hans hefur fólki sem starfar í Molanum verið tjáð að einstaklingarnir sem um ræðir séu ekki smitaðir af Covid-19. „Samkvæmt okkar upplýsingum voru þeir neikvæðir á landamærunum en áttu náttúrlega að vera í sóttkví og voru sannarlega að brjóta hana,“ segir Björgvin.  

mbl.is