Vill afnema fjöldatakmörk í hjúskap og sambúð

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert

Píratar hyggjast leggja þingsályktunartillögu fyrir Alþingi um að bæði hjúskapur og skráð sambúð geti átt við fleiri en tvo einstaklinga, skylda sem óskylda. Um er að ræða tillögu um breytingu á hjúskaparlögum og segir Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata að það komi ríkisvaldinu í raun ekki við „hver elskar hvern og hvernig.“

„Þetta snýst bara um það að tveir eða fleiri vilji deila saman ákveðinni ábyrgð lögformlega gagnvart eignum, samningum og ábyrgð á börnum til dæmis,“ segir Björn Leví í samtali við mbl.is.

„Við erum að pæla í þessum fjöldatakmörkum, þegar allt kemur til alls. Það á dálítið við í þessu faraldsástandi þar sem eru fjöldatakmarkanir víða. Því var breytt fyrir um áratug síðan að [hjúskapur] væri ekki á milli karls og konu heldur á milli tveggja einstaklinga og þá veltir maður því fyrir sér hvers vegna það sé bara á milli tveggja. Af hverju þrír aðilar geti ekki ættleitt saman.“

Þarf ekki að koma ástarmálum við

Þó einhverjum gæti dottið það í hug þá snýr tillagan ekki bara að fólki í fjölkærum samböndum, þar sem fólk er í upplýstum og meðvituðum ástarsamböndum með fleiri en einum aðila í einu.

 „Þetta á í sjálfsögðu líka [við fjölkæra], það kemur ríkinu ekkert við hver elskar hvern og hvernig,“ segir Björn Leví sem telur að hjúskapur og skráð sambúð þurfi ekki að koma ástarmálum við.

„Þetta snýst í rauninni um það að við erum með nokkra möguleika á sameiginlegri ábyrgð eða sameiginlegum skyldum. Þetta snýr að því að geta valið úr þeirri ábyrgð, hvers konar hjúskap þú vilt. Það er ekki endilega allt eða ekkert. Þú getur valið að vera með þessum þremur í hjúskap um eitthvað ákveðið en öðrum fimm í hjúskap um annað,“ segir Björn Leví.

Aðskilja lagalegan og líkamlegan hjúskap og sambúð

Hann bendir á að breytingarnar geri sifjaspell þó ekki löglegt enda markmið lagabreytinganna að aðskilja lagalegan og líkamlegan hjúskap og sambúð.

„Það eru líka til sambönd milli tveggja eða fleiri einstaklinga sem eru ekki kynferðisleg á neinn hátt. Aukin þekking á kynvitund og kynhneigð undirstrikar samt sem áður fjölbreytileika mannfólksins. Forsendur sambúðar eftir kynvitund eða kynhneigð koma löggjafanum ekki við. Löggjafinn setur grundvallarviðmið um hvað hjúskapur þýðir með tilliti til lagalegra álitaefna eins og skiptingu eigna og ábyrgð á börnum. Það getur átt við hvort sem sú skipting er á milli tveggja einstaklinga eða fleiri og hvort heldur sem skyldmenni eða óskyldir einstaklingar axla saman þá ábyrgð. Það er ekki sjálfgefið að ábyrgð á börnum eða eignum sé einungis málefni einnar manneskju eða tveggja óskyldra einstaklinga,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni.

Breytingin sem Píratar leggja til hefur áhrif á önnur lög.

„Þar má nefna lög um ættleiðingar þar sem texti þeirra laga gerir ráð fyrir að foreldrar séu í mesta lagi tveir einstaklingar. Einnig hefði breytingin áhrif á erfðalög, þar sem einungis er nú gert ráð fyrir einum maka, og lög um tekjuskatt af sömu ástæðum og vegna samnýtingar persónuafsláttar. Taka þarf til athugunar helmingaskiptareglu erfðalaga og þá kröfu að allir einstaklingar í hjúskap þurfi að eiga sama lögheimili,“ segir í þingsályktunartillögunni.

Tillagan í umsagnarferli

Þingsályktunartillaga Pírata hefur ekki verið lögð fram en hún er nú í almennu umsagnarferli.

 „Við erum að taka prufu á því hvernig það gæti virkað. Þingflokkar fari að leggja mál í umsagnarferli eins og stjórnvöld gera, áður en málin eru lögð fram á þingið til þess að koma með fleiri sjónarmið að greinargerð og svo framvegis fyrr,“ segir Björn Leví.

Hér má finna þingsályktunartillöguna og umsagnarferli hennar.

mbl.is