„Áfram gakk, berjast, 1,2,3!“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Árni Sæberg

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að ástæða sé til að hrósa þjóðinni fyrir það hvernig til tókst að komast í gegnum jól og áramót án þess að hér hafi smitstuðull hækkað svo nokkru næmi. Um ár er síðan Þórólfur fékk faraldursverkefnið í hendurnar og segist hann jafn stemmdur fyrir verkefninu sem fyrr og er „fyr og flamme“ fyrir framhaldinu. 

Ekki tækifæri til að halda partý 

„Það er ekki hægt að túlka þetta öðruvísi en að fólk hafi passað sig og farið eftir settum reglum jafnvel þótt fólk hafi verið mikið á ferðinni. Margir voru smeykir við að eitthvað gæti gerst en svo varð ekki og ég vona að nú þegar verið er að rýmka reglur að fólk haldi áfram að passa sig og fari ekki að túlka þessar tilslakanir sem tækifæri til þess að halda partý,“ segir Þórólfur.

Þórólfur segir útlit fyrir að smitum hafi ekki fjölgað eftir …
Þórólfur segir útlit fyrir að smitum hafi ekki fjölgað eftir jól og áramót eins og menn höfðu óttast. Kristinn Magnússon

Nú hafa ýmsar gagnrýnisraddir beinst að þeim ákvörðunum sem þú hefur tekið. Fær svona gagnrýni á þig?

„Nei alls ekki. Þetta er búið að vera svona frá upphafi faraldursins. Hvort sem um er að ræða hertar aðgerðir eða tilslakanir, þá fara menn að bera sig saman og finna eitthvert ósamræmi hér og þar. þetta fær ekkert á mig en það er alltaf hægt að finna eitthvert ósamræmi. Það er ekki hægt að búa til reglur sem passa við hverja einustu starfsemi og einstaklings í landinu þannig að fulls samræmis sé gætt. Það er algjörlega vonlaust. En það sem er algjörlega ljóst er að við höfum verið með takmarkandi aðgerðir og hvort sem mönnum finnst þær sanngjarnar eða ósanngjarnar, þá höfum við náð árangri af þeim. Vonandi líta menn til þess,“ segir Þórólfur.

Hann segist skilja það að fólk sé ósátt þegar það nýtur ekki sömu réttinda og aðrir.

Ekki farið í manninn 

Finnst þér sumir fara í manninn en ekki boltann þegar ákvarðanir eru gagnrýndar?

„Ég hef ekki orðið fyrir persónulegum árásum eða skömmum en menn hafa gagnrýnt tillögurnar og ég myndi líta svo á að menn séu að fara í boltann en ekki mig. Það er enginn sem hefur ráðist á einstaklinginn Þórólf Guðnason þótt margir hafi gagnrýnt tillögurnar. Ég hef í það minnsta ekki fundið fyrir því,“ segir Þórólfur.

Bólusetning er hafin. Þórólfur segist klár í slaginn fyrir framhaldið.
Bólusetning er hafin. Þórólfur segist klár í slaginn fyrir framhaldið. Kristinn Magnússon

Finnst þér sumir vera með frekjutal?

„Nei alls ekki. Sumir eru háværari en aðrir en maður skilur það þegar fólk gagnrýnir,“ segir Þórólfur.

Nú er liðið ár síðan þú fékkst þetta verkefni í hendurnar. Ertu jafn stemmdur fyrir verkefninu núna eins og þú hefur verið?

„Já algjörlega. Við hófum undirbúning upp úr áramótunum í fyrra við þetta verkefni og þetta er það sem við höfum unnið við í mörg ár og gert ráð fyrir að geta tekist á við á einhverjum tímapunkti. Nú er að hefjast nýr kafli með bólusetningum og það er það sem ég þekki mjög vel. Ég er því bara fyr og flamme (klár í slaginn) eins og menn segja,“ segir Þórólfur.

Ekki til mannskapur til að dreifa álaginu 

Færðu eitthvert frí?

„Nei, fjölmiðlar eru alltaf að hringja. Svo er eftirlitið og eftirfylgni sem þarf dags daglega. Við sem erum í forsvari fyrir þessum vörnum erum með hugann við þetta alla daga. Svo er ekki svo mikill mannskapur til þannig að við getum dreift þessu. Menn hafa ákveðið hlutverk í þessari varnarbaráttu og ef við hefðum svipuð forráð og nágrannaþjóðirnar þar sem mörg hundruð manns eru í þessu þá gætum við dreift álaginu. Hér eru hins vegar bara nokkrar manneskjur sem geta sinnt þessu og þá er ekkert um annað að ræða en að vera í þessu dags daglega,“ segir Þórólfur.

Mikið álag er á fólki í framlínunni og segir Þórólfur …
Mikið álag er á fólki í framlínunni og segir Þórólfur það skýrast af því hve fámennur hópur sé tiltækur til að takast á við verkefnið. Kristinn Magnússon

Hefur þú tekið frídag síðasta árið?

„Það fer eftir því hvernig þú skilgreinir frídag. Það er alltaf einhver vinna í þessu alla daga. Ég reyndi að taka frí í sumar í tvær vikur, en ég var meira og minna í símanum allan tímann, sérstaklega aðra vikuna. Þetta er bara svona og verður svona þar til við förum að sjá fyrir endann á þessu,“ segir Þórólfur.

Er það núna bara áfram gakk og berjast?

Já, áfram gakk, berjast, einn, tveir þrír!“ segir Þórólfur léttur.

mbl.is