Áfrýja 14 ára dómi fyrir manndráp

Málinu hefur verið áfrýjað til Landsréttar.
Málinu hefur verið áfrýjað til Landsréttar. mbl.is/Hanna

Karlmaður á sextugsaldri sem sakfelldur var í Héraðsdómi Reykjaness í gær fyrir manndráp hyggst áfrýja dómnum til Landsréttar. Þetta staðfestir Guðmundur B. Ólafsson, verjandi hans, í samtali við mbl.is.

Maðurinn var dæmdur í 14 ára fangelsi í héraðsdómi fyrir að hafa orðið eiginkonu sinni að bana á heimili þeirra í Sandgerði 28. mars. Hann neitar sök. Þinghald var lokað að ósk verjanda og hefur dómurinn ekki verið birtur á heimasíðu dómstólanna.

Maðurinn var handtekinn í apríl og sat í gæsluvarðhaldi þar til Landsréttur felldi það úr gildi í október, en í úrskurði Landsréttar var vísað til niðurstöðu dómkvaddra matsmanna sem töldu hugsanlegt að maðurinn hefði látist af öðrum völdum en köfnun við hálstak. Ekki væri hægt að staðfesta að maðurinn hefði þrengt að hálsi konunnar rétt fyrir andlátið heldur kynni það að hafa gerst allt að þremur dögum fyrr.

Dómaframkvæmd Landsréttar í ofbeldismálum hefur vakið athygli að undanförnu, en í úttekt Fréttablaðsins í upphafi árs kom fram að Landsréttur hefði á liðnu ári snúið við eða mildað fjölda dóma yfir ofbeldismönnum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert