Ekki fleiri smit á krabbameinsdeild

Enginn starfsmaður eða sjúklingur blóð- og krabbameinsdeildar reyndist smitaður af …
Enginn starfsmaður eða sjúklingur blóð- og krabbameinsdeildar reyndist smitaður af Covid-19 fyrir utan þann sjúkling sem greindist með sjúkdóminn í gærkvöldi. Ljósmynd/Landspítalinn

Niðurstöður skimunar fyrir Covid-19 hjá sjúklingum og starfsfólki blóð- og krabbameinsdeildar eru allar neikvæðar. Í ljósi þess hefur farsóttanefnd spítalans ákveðið að opna deildina fyrir innlögnum að nýju og hefja hefðbundna starfsemi.

Starfsmenn og sjúklingar blóð- og krabbameinsdeildar (11EG) voru allir sendir í sýnatöku eftir að að sjúklingur sem hafði legið skamma stund inni á deildinni fékk jákvætt svar úr sýnatöku í gærkvöldi og var deildinni lokað í kjölfarið. Niðurstöður úr sýnatökum úr starfsmönnum lágu fyrir á fjórða tímanum í dag og voru þær neikvæðar í öllum tilfellum. Nú liggur fyrir að allir aðrir sjúklingar eru einnig neikvæðir fyrir Covid-19.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landspítala. Ekki liggur fyrir hvernig sjúklingurinn, sem fékk jákvæða svörun í gærkvöldi, smitaðist af veirunni en ljóst þykir að hann hafi smitast fyrir innlögn. Alls voru um 30 inniliggjandi sjúklingar og 20 starfsmenn deildarinnar skimaðir fyrir veirunni snemma í morgun.

mbl.is