Fljúgandi hált á höfuðborgarsvæðinu

Mikil ísing er á götum og stígum á höfuðborgarsvæðinu og mikilvægt að fólk fari varlega í umferðinni, bæði akandi, hjólandi og gangandi. Unnið er að því að salta götur og stíga en þar sem blotnar og frýs til skiptist eru aðstæður stórvarasamar. 

Sigurður Ingvar Geirsson, verkstjóri yfir hreinsun stíga á framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar, segir að frá því fjögur í nótt hafi verið unnið við að salta og pækla hjólastíga og göngustíga sem liggja við hjólastíga. Eins sé verið að sanda stíga og gangstéttir inni í íbúðahverfum. Ísregn hafi verið í nótt sem þýðir að þrátt fyrir að hitastigið sé 2,5 gráður hafi regnið frosið um leið og það lenti á jörðu en síðdegis í gær hafi hitastigið farið niður í 1,2 gráður í Reykjavík en engin hálka myndast þar sem þá var úrkomulaust. 

Að sögn Sigurðar verða allar vélar og mannskapur á fullu í dag eða á meðan þetta ástand varir. Halldór Ólafsson, verkstjóri yfir gatnahreinsun í Reykjavík, tekur undir þetta með Sigurði en unnið hefur verið að því að salta götur frá því í nótt. Hann segir að blotni og frysti til skiptis sem þýðir að þar sem var fyrst saltað í nótt þurfi að salta að nýju núna. 

Bæði Halldór og Sigurður biðja fólk um að fara mjög varlega þegar það fer út í umferðina enda hálkan lúmsk eða eins og Halldór segir; svokölluð svartahálka eða glærahálka yfir öllu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert