Guðmundur fær loksins hendur eftir sögulega aðgerð

Guðmundur Felix Grétarsson.
Guðmundur Felix Grétarsson. mbl.is/Golli

Guðmundur Felix Grétarsson, rafvirki sem missti báða handleggi í slysi árið 1998, liggur nú á gjörgæslu í Lyon í Frakklandi eftir að hafa undirgengist tvöfalda handleggjaágræðsluaðgerð í gær.

Þetta er í fyrsta sinn sem svo flókin aðgerð er framkvæmd í heiminum en hendur voru græddar á Guðmund. Ástand hans er nú stöðugt að því er fram kemur í frétt franska miðilsins 20 Minutes.

Aðgerðin tók 14 klukkustundir og sá sitt hvort teymi lækna um annars vegar ágræðsluna og hins vegar um að fjarlægja handleggi af gjafanum.

Guðmundur settist að í Lyon árið 2013 þegar ljóst var að þar gæti hann mögulega fengið grædda á sig handleggi. Hann hafði komið sér í samband við prófessor Jean-Michel Dubernard, sem fyrstur græddi handlegg á mann árið 1998. Við tók löng bið eftir aðgerðinni.

Nú liggur Guðmundur á gjörgæslu eins og áður segir og verður fylgst með því hvernig hann bregst við ágræðslunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina