Í kjölfar þess að Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, tilkynnti í gær að hann byði sig fram til að leiða lista Framsóknar í Reykjavíkurkjördæmi norður hafa þrjú tilkynnt um framboð til að leiða listann í Norðvestur kjördæmi.
Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, hafði áður tilkynnt að hún sæktist eftir endurkjöri í annað sæti listans. Við breyttar aðstæður hefur hún nú tilkynnt um að hún sækist eftir 1.-2. sæti á listanum.
Stefán Vagn Stefánsson, sveitarstjórnarfulltrúi Framsóknar í Skagafirði, hafði áður boðið sig fram á móti Höllu Signýju í 2. sæti á lista en sækist nú eftir 1. sæti.
Guðveig Eyglóardóttir, sveitarstjórnarfulltrúi Framsóknar í Borgarbyggð, tilkynnti í gær að hún sæktist eftir 1.-2. sæti á lista Framsóknar í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosingar.