Leggur til sýnatöku fyrir flug

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vill herða aðgerðir á landamærum.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vill herða aðgerðir á landamærum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur lagt það til við heilbrigðisráðherra að farþegum sem hingað koma til lands verði gert að framvísa neikvæðu kórónuveiruprófi áður en þeir halda upp í flugvél til Íslands.

Engu að síður muni þeir áfram þurfa að fara í tvöfalda sóttkví við komuna til landsins, eða fjórtán daga sóttkví kjósi þeir heldur. Tillögurnar taka til allra komufarþega fæddra 2005 eða síðar. Má prófið ekki vera eldra en 48 klukkustunda gamalt þegar komið er til landsins.

Þórólfur hefur áður boðað að herða þurfi aðgerðir á landamærum í ljósi aukinnar útbreiðslu veirunnar erlendis. Hlutfall jákvæðra sýna meðal ferðalanga hefur farið vaxandi síðustu vikur og er yfir einu prósenti um þessar mundir. Þá eru dæmi um að tíu prósent farþega í sömu vél séu jákvæð.

Hann hafði í síðustu viku lagt til að aðgerðir á landamærum yrðu hertar á þá leið að ekki mætti velja 14 daga sóttkví við komuna til landsins, en til vara að fólk yrði þá að vera í sóttkví í farsóttahúsinu. Ekki var fallist á þær tillögur vegna óvissu um lögmæti þeirra og leggur Þórólfur því fram nýjar tillögur.

Mörg ríki krefjast þess að farþegar framvísi neikvæðum kórónuveiruprófum áður en haldið er í flug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert