Lítið um vetrarstillur

Kort/Veðurstofa Íslands

Umhleypingar næstu daga og lítið um vetrarstillur segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands um veðurfarið þessa dagana.

„Suðlægar áttir verða ríkjandi á landinu í dag með skúrum eða slydduéljum, en léttir til norðan- og austanlands þegar líður á daginn og kólnar heldur þar og má gera ráð fyrir að þar verði besta veðrið sem boðið verður upp á í þessari viku í dag og fram eftir degi á morgun.

Skil ganga inn á land á morgun úr suðri með vaxandi austanátt. Hvassviðri síðdegis og rigning eða slydda um landið sunnanvert, en þykknar upp fyrir norðan. Hvassast verður allra syðst, einkum undir Eyjafjöllum. Austan- og norðaustanátt annað kvöld, 10-18 m/s. Bætir í úrkomu suðaustan- og austanlands og má búast við talsverðri eða mikilli úrkomu á þeim slóðum.

Slydda eða snjókoma með köflum í öðrum landshlutum, en yfirleitt þurrt á Vestfjörðum. Vetrarlegt veður í kortunum um helgina, allhvöss eða hvöss norðan- og norðvestanátt. Snjókoma eða slydda fyrir norðan og lítið skíðaveður en styttir upp og léttir til syðra og fremur svalt í veðri en stífur vindur,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Veðurhorfur á landinu

Sunnan og suðaustan 5-13 og skúrir eða slydduél, en rigning austanlands fram eftir morgni. Léttir til norðan- og austanlands eftir hádegi. Gengur í austan 13-20 með rigningu eða slyddu um landið sunnanvert á morgun, hvassast syðst síðdegis en mun hægari vindur og þykknar upp fyrir norðan. Austan og norðaustan 10-18 annað kvöld. Slydda eða snjókoma með köflum, en talsverð eða mikil rigning suðaustan- og austanlands. Hiti 0 til 5 stig, en hiti kringum frostmark fyrir norðan.

Á föstudag:
Austlæg átt, 5-10 m/s og úrkomulítið norðan til á landinu, en gengur í austan 13-20 m/s um landið sunnanvert með rigningu eða slyddu, hvassast syðst. Talsverð eða mikil rigning suðaustan- og austanlands um kvöldið. Hiti 0 til 5 stig sunnan til, en hiti um og undir frostmarki norðan til.

Á laugardag:
Norðaustan 8-15 N-til, en norðvestan 8-15 S-til. Rigning eða slydda með köflum, en talsverð rigning A-lands. Heldur hvassari norðanátt með snjókomu norðan til um kvöldið, en dregur úr úrkomu fyrir austan. Hiti um og yfir frostmarki.

Á sunnudag:
Hvöss norðan- og norðvestanátt með slyddu eða snjókomu norðan til á landinu en heldur hægari og þurrt sunnan heiða. Hiti kringum frostmark.

Á mánudag, þriðjudag og miðvikudag:
Útlit fyrir norðanátt með éljum, einkum norðaustan til en þurrt og bjart syðra. Kalt í veðri.

mbl.is