Páll Valur vill á lista Samfylkingar

Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður.
Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar, gefur kost á sér í eitt af efstu sætum lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Hann greinir frá þessu í bréfi til félagsmanna.

Páll sat á alþingi fyrir Bjarta framtíð kjörtímabilið 2013-2016 en gekk síðar til liðs við Samfylkinguna. Var hann í öðru sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir síðustu alþingiskosningar og er hann varaþingmaður flokksins. Þess utan starfar hann sem kennari og er oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Grindavíkur.

Í bréfi til félagsmanna segir Páll að ekki þurfi að fara í grafgötur með að koma þurfi á félagshyggjustjórn í landinu undir forystu Samfylkingarinnar og telji hann krafta sína mikilvæga þar. Biður hann þá sem telja hann eiga erindi til starfsins að senda kjörmannaráði flokksins í Suðurkjördæmi tilnefningu þess efnis, en tekið er við tilnefningum til morguns, 15. janúar.

mbl.is