Rúmir 1,7 milljarðar í lokunarstyrki

Búið er að greiða alls um 1.725 milljónir króna í lokunarstyrki til tæplega 1.500 fyrirtækja og annarra rekstraraðila frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst. Þá er einnig búið að greiða samtals rúmlega 11,7 milljarða kr. í stuðning til rekstraraðila vegna hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti starfsfólks frá því að það úrræði var lögfest en það er við það að renna sitt skeið.

Alls bárust 1.820 umsóknir um þennan stuðning vegna launakostnaðar frá 435 rekstraraðilum en ein umsókn er talin fyrir hvern almanaksmánuð. Búið er að afgreiða 1.441 umsókn frá 395 rekstraraðilum en einhverjar umsóknir eru óafgreiddar þar sem þær eru ekki fullbúnar eða hafa ekki verið undirritaðar.

Þetta kemur fram á nýju yfirliti sem fékkst hjá skattinum í gær um stöðu aðgerða til að mæta efnahagslegum áhrifum faraldurs kórónuveirunnar, sem skatturinn hefur umsjón með.

Lokunarstyrkjum hefur verið skipt upp efir tímabilum. Fyrstu styrkirnir frá 24. mars til 4. maí runnu til rúmlega 1.100 rekstraraðila, samtals rúmlega 955 milljónir kr. Viðbótarlokunarstyrkir sem ákveðnir voru til 18. maí hafa einnig verið afgreiddir að fullu en þeir voru alls um 53,7 milljónir, og fóru til 65 rekstraraðila. Frá sl. hausti hafa svo borist alls 588 umsóknir um lokunarstyrki vegna lokana sem stóðu yfir frá 18. september til 17. nóvember. Búið er að afgreiða stærstan hluta af fullbúnum umsóknum um þessa styrki, samtals upp á um 716 milljónir kr. til um 310 rekstraraðila, að því  er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í  Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »