Sjö andlát tilkynnt í kjölfar bólusetningar

Ljósmynd/Lyfjastofnun

Tilkynningar til Lyfjastofnunar um andlát í kjölfar bólusetningar með bóluefni Pfizer eru nú orðnar sjö talsins. Í öllum tilvikum er um að ræða aldraða einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma á hjúkrunar- eða dvalarheimilum. Alls hefur Lyfjastofnun borist 61 tilkynning um mögulegar aukaverkanir, þar af átta alvarlegar. 

Þetta staðfestir Rúna Hauksdóttir Hvannberg í samtali við mbl.is. RÚV greindi fyrst frá. 

Hún segir að allir einstaklingarnir hafi verið bólusettir 29. eða 30. desember síðastliðinn. 

„Tímalengd frá bólusetningu og fram að andláti er töluvert mismunandi hjá þessum einstaklingum,“ segir Rúna.

„Eins og tölfræðin er þá er almennt talað um að það séu 18 andlát á viku á dvalarheimilum. Þetta er kannski frekar tengt þeirri tölfræði en bólusetningunni. Þetta er líka að raungerast í löndunum í kringum okkur. Noregur er búinn að tilkynna um 23 andlát hjá öldruðum einstaklingum eftir bólusetningu.“

Niðurstöður rannsóknar á fyrri andlátum tilkynntar í vikunni

Embætti landlæknis gerir ráð fyrir að rannsókn á mögulegum alvarlegum aukaverkunum, þar á meðal andlátum, í kjölfar bólusetningar við Covid-19 taki viku til tíu daga. Fimm tilvik, þar af fjögur andlát, voru tilkynnt til Embættis landlæknis þann 5. janúar og því er gert ráð fyrir að rannsókninni á þeim ljúki því í þessari viku. Lögð er áhersla á að athugunin muni ganga hratt fyrir sig, samkvæmt upplýsingum frá embættinu.  

Hingað til hafa ekki verið birtar upplýsingar um það að andlátin tengist bólusetningunni. Tilkynningarnar bárust vegna bóluefnis Pfizer og BioNTech. 

Samkvæmt upplýsingum frá Embætti landlæknis miðar rannsókn á mögulegum alvarlegum aukaverkunum vel.

Setja upplýsingar um aukaverkanir á vefinn

Í gær hófst bólusetning hérlendis með bóluefni Moderna. Lyfjastofnun hefur ekki fengið tilkynningar um aukaverkanir vegna þess hingað til en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í morgun að eitt tilvik bráðaofnæmis hefði komið upp. 

Lyfjastofnun hefur kallað eftir upplýsingum um mögulegar aukaverkanir, að sögn Rúnu. Hún segir að nú sé unnið að því að gera upplýsingar um mögulegar aukaverkanir aðgengilegar almenningi. 

„Við erum að vinna að því að setja upp stafrænar upplýsingar á vefinn hjá okkur. Annaðhvort tekst okkur að koma því inn á morgun eða strax eftir helgi,“ segir Rúna í samtali við mbl.is. 

mbl.is

Bloggað um fréttina