Starfsfólk skólans lagði líf sitt í hættu

Skólastarf í Borgarholtsskóla hófst aftur í morgun eftir árásina í …
Skólastarf í Borgarholtsskóla hófst aftur í morgun eftir árásina í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skólastarf hófst á nýjan leik í Borgarholtsskóla í morgun eftir árásina í gær þegar að minnsta kosti sex þurftu aðstoð á slysadeild. Ársæll Guðmundsson skólameistari segir að enginn kennari hafi meiðst. Starfsfólk skólans hafi gengið mjög örugglega til verks saman þegar átökin brutust út.

„Ég held að þeir hafi bjargað gríðarlega miklu. Þeir lögðu líf sitt í hættu og komu þessum ofbeldisseggjum og slagsmálum út úr húsi þar sem þeir héldu áfram. Að mínu viti gerðu þeir algjörlega kraftaverk til að verja hér nemendur skólans og skólann sinn. Það eru marblettir víða en það eru allir mættir í vinnu en allir í spennufalli,“ segir hann og telur mildi að þessi hópur kennara og starfsfólks hafi verið nálægt þar sem átökin brutust út. Þau hafi gripið hratt inn í atburðarásina.

Hann kveðst ekki hafa frekari upplýsingar um atburðarásina eða meiðsli þeirra sem voru fluttir á slysadeild.

„Brjálsemi fárra“ slái fólk ekki út af laginu

Ársæll segir að atburðirnir séu ræddir hispurslaust í skólanum og að bæði nemendur og starfsfólk geti leitað til teymis sérfræðinga í áfallahjálp sem verður í skólanum í dag.

„Það voru allir mjög fegnir að komast í staðnám á þessari önn og búið að vera hér friður og rósemd og gleði þangað til þetta dynur yfir í gær. Mér sýnist allir algjörlega á því að láta það halda áfram hér. Láta ekki þessa brjálsemi þessara fáu einstaklinga sem þurfa virkilega á hjálp að halda slá okkur út af laginu. Hvað varðar skólastarfið eru allir ótrúlega rólegir og yfirvegaðir,“ segir Ársæll, spurður út í andrúmsloftið í skólanum.

Hann bætir við að gott sé að vita af teyminu í áfallahjálp í skólanum og einhverjir hafi þegar nýtt sér þjónustu þeirra. „Við, eins og allt samfélagið, erum slegin yfir því að svona grímulaust ofbeldi geti búið í einhverjum manneskjum.“

Lögreglumaður á vettvangi.
Lögreglumaður á vettvangi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allir með varann á sér

Spurður út í auknar öryggisráðstafanir vegna árásarinnar segir Ársæll að gerendurnir séu í umsjá lögreglunnar og að árásin hafi ekki snúist gegn skólanum sjálfum, heldur hafi þarna verið uppgjör einstaklinga sín á milli. „Við teljum enga hættu hér frekar en annars staðar á svona ofbeldisverkum,“ segir hann en nefnir að allir séu með varann á sér.

Einungis aðalinngangur skólans verður opinn í dag. Samtals eru inngangar skólans 19 og búið var að læsa mörgum af þeim til að hafa betri stjórn á því hverjir koma inn og út úr skólanum. Þegar Covid-19 hófst var ákveðið að fjölga þeim aftur til að geta hólfað skólann betur niður. „Þannig var það enn þá núna þegar þetta gerist. Þetta er umhugsunarefni fyrir okkur öll, opinberar stofnanir og skólana hvernig aðgengið er að þeim,“ segir hann. 

Ekki náðist í lögregluna við vinnslu fréttarinnar. 

mbl.is