Vekur upp spurningar um öryggi

Sjúkrabíll við Borgarholtsskóla í gær.
Sjúkrabíll við Borgarholtsskóla í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Formanni Félags framhaldsskólakennara er að vonum brugðið eftir árásina í Borgarholtsskóla í gær þegar að minnsta kosti sex voru fluttir á slysadeild.

„Auðvitað hrekkur maður við. Fólk er í sjokki yfir þessu öllu saman og það eru allir fegnir að það fór ekki verr en þetta vekur upp ákveðnar spurning um skólahúsnæði sem örugga staði til vinnu og náms,“ segir Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara, FF.

Hann vill ekki tjá sig um árásina sjálfa, enda er hún í rannsókn hjá lögreglunni. „Við vitum það vel að það er hópur í samfélaginu sem á erfitt. Þetta er kannski fyrst og fremst samfélagslegt vandamál,“ segir hann en veltir eins og áður sagði fyrir sér örygginu. „Maður hefur alist upp við að skólar eru öruggar hafnir þar sem fólk er óhult við sína iðju. Samfélagið hefur alltaf borið mikla virðingu fyrir þessari starfsemi.“

Guðjón Hreinn Hauksson.
Guðjón Hreinn Hauksson. Ljósmynd/Aðsend

Guðjón Hreinn er búinn að hafa samband við fulltrúa kennara í Borgarholtsskóla og skólameistarann. Enginn kennari hefur haft samband við félagið vegna árásarinnar. Alls starfa um 110 kennarar í skólanum. Ekki hefur verið boðað til fundar hjá stjórn FF vegna málsins en Guðjón reiknar með því að rætt verði um það á næsta fundi.

Spurður hvort árásin feli í sér almenna þróun í átt að auknu ofbeldi í skólum segist hann hafa orðið rólegri hvað það varðar þegar hann ræddi við skólameistarann. Hann hafi fullvissað hann um að árásin hafi ekki beinst að skólanum. „Maður fór strax að hugsa um skólaárásir erlendis frá en það virðist ekkert slíkt vera í spilunum,“ segir hann en telur árásina engu að síður vera hræðilega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert