Vímuefnapróf hjá starfsmönnum Icelandair

Allir starfsmenn Icelandair munu þurfa að undirgangast vímuefnapróf.
Allir starfsmenn Icelandair munu þurfa að undirgangast vímuefnapróf. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allir starfsmenn Icelandair munu undirgangast vímuefnapróf, bæði handahófskennd og skipulögð, samkvæmt nýrri stefnu fyrirtækisins um áfengis- og vímuefnalausan vinnustað. Þetta staðfestir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is en fyrst var greint frá í Fréttablaðinu.

Í næsta mánuði tekur gildi Evrópureglugerð sem kveður á um að flugfélög sem fljúga til Evrópusambandsins skuli láta starfsmenn sem sinna flugi og öryggistengdum störfum fara í vímuefnapróf, en Ásdís segir að Icelandair muni ganga lengra og láta reglurnar gilda um alla starfsmenn.

Í skriflegu svari til mbl.is segir Ásdís að ákveðið hafi verið að stefnan um áfengis- og vímuefnalausan vinnustað nái til alls starfsfólks enda sé það ein heild og mikilvægt sé að skapa öruggan og heilsusamlegan vinnustað. Verklag verður þó mismunandi á milli hópa eftir hlutverki innan félagsins.

Álitamál hvort samþykki er óþvingað

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segist ekki geta tjáð sig um einstök mál, en álitamál tengd vímuefnuprófunum hafi reglulega komið inn á borð Persónuverndar. Þar vegist á sjónarmið um öryggi og friðhelgi einkalífs.

Helga segir að stundum sé starf þess eðlis að eðlilegt sé að stífari reglur gildi. „Það vilja allir að það sé hafið yfir vafa að flugmaður geti flogið flugvél.“ Hins vegar eigi almennir skrifstofustarfsmenn, svo dæmi sé tekið, ekki að þurfa að þola slíkt inngrip.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í áliti sem stofnunin vann árið 2013 sagði að álitamál væri hvort samþykki starfsmanns til vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við gerð vímuefnaprófs fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru til samþykkis í persónuverndarlögum. 

„Það þarf að taka tillit til þess valdaójafnvægis sem er á vinnustöðum. Það verður til þess að samþykkið í persónuverndarlögum virkar frekar illa,“ segir Helga og vísar til ákvæða persónuverndarlaga, sem sett voru 2018, um upplýst og óþvingað samþykki fyrir vinnslu persónuupplýsinga. „Ef starfsmaður samþykkir ekki [vímuefnapróf] þá gæti það þýtt uppsögn.“ Því megi þar varla teljast óþvingað samþykki.

Helga segir að farsælast væri að tekið væri á vímuefnaprófum í kjarasamningum við heilar starfstéttir. Hafa þurfi í huga að hér sé um að ræða heilsufarsupplýsingar, sem metnar eru viðkvæmar persónuupplýsingar, og því gildi strangari kröfur um slíka vinnslu. Þar mætti semja um hvort stétt þyrfti að þola slík próf eða hvort gengið væri of langt með inngripi í einkalíf fólks. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert