Yfir 2.600 í þjónustu VIRK

2.330 einstaklingar hófu starfsendurhæfingu á vegum VIRK á árinu 2020, 11,4% fleiri en árið á undan. 1.595, eða 11,7%, fleiri útskrifuðust frá VIRK 2020 en árið 2019.

2.611 einstaklingar voru í starfsendurhæfingarþjónustu á vegum VIRK um áramótin, um það bil jafnmargir og um síðustu áramót.

Um áramótin höfðu alls 19.358 hafið starfsendurhæfingu hjá VIRK frá því fyrsti einstaklingurinn hóf starfsendurhæfingu á vegum starfsendurhæfingarsjóðsins haustið 2009.

11.710 einstaklingar hafa lokið þjónustu, útskrifast, frá VIRK frá upphafi og 76% þeirra eru virkir á vinnumarkaði við útskrift, eru með vinnugetu og fara annaðhvort beint í launað starf, virka atvinnuleit eða lánshæft nám.

Á vef VIRK kemur fram að niðurstöður Talnakönnunar sýna að ávinningurinn af starfsemi VIRK á árinu 2019 nam 20,5 milljörðum og að reiknaður meðalsparnaður samfélagsins á hvern útskrifaðan einstakling frá VIRK nam 14,4 milljónum það ár.

Sjá nánar hér

mbl.is