17 milljónir í sálfræðiaðstoð fyrir Seyðfirðinga

Savndís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Savndís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

17 milljóna króna viðbótarfjárframlagi verður veitt til Heilbrigðisstofnunar Austurlands til að efla geðheilbrigðisþjónustu við íbúa á Seyðisfjarðar í kjölfar hamfaranna sem þar urðu skömmu fyrir jól. 

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Þá segir í tilkynningunni að starfsfólk heilbrigðisstofnunarinnar hafi fundið fyrir verulega aukinni þörf fólks fyrir áfallameðferð og þjónustu geðteymis eftir atburðinn.

 „Efling geðheilbrigðisþjónustu er eitt af forgangsmálum mínum. Í ljósi atburðanna á Seyðisfirði er mikilvægt að við bregðumst skjótt við og aukum framboð geðheilbrigðisþjónustunnar við íbúana eins og við erum að gera nú með auknu fjárframlagi,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðiráðherra í samtali við mbl.is.

„Fagfólk telur mikilvægt að bregðast skjótt við með aukinni þjónustu til að fyrirbyggja að einstaklingar sem þurfa á stuðningi að halda þrói með sér alvarlega og langvinna áfallastreituröskun,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is