Hrikaleg hálka á stígum

Hjólreiðafólk er beðið um að fara varlega því víða leynast …
Hjólreiðafólk er beðið um að fara varlega því víða leynast hálkublettir. mbl.is/Hari

Hjólreiðamenn og gangandi vegfarendur á höfuðborgarsvæðinu eru beðnir um að gæta fyllstu varúðar því hættulegar aðstæður eru á mörgum hjóla- og göngustígum vegna hálku. Búið er að salta en það virðist ekki duga til. 

Sigurður Ingvar Geirsson, verkstjóri á framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar, segir að aukamannskapur hafi verið kallaður út og allar vélar úti frá því í nótt við að salta götur, stíga og gangstéttar. Jafnframt er verið að sanda í íbúðahverfum. Hann segir ástandið síst betra en í gær en þá þurfti að salta í þrígang. Nú er að hefjast önnur umferð söltunar í Reykjavík í dag og útlit fyrir að sú þriðja sé nauðsynleg líkt og í gær. 

Ein vél verktaka á vegum borgarinnar valt í morgun vegna hálkunnar og því ljóst að nauðsynlegt er að fara mjög varlega, ekki síst á meðan enn er myrkur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert