Hvenær er verslun verslun?

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.

Mál Ásmundarsalar er um margt óvenjulegt. Fyrir utan þá augljósu staðreynd að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var á meðal gesta snýr málið einnig að því hvort raunverulega hafi verið um verslunarrými að ræða og hvort fjarlægðarmörk og grímuskylda hafi verið virt. Hver er staða gesta salarins gagnvart löggjafanum? 

Fram kom í máli lögreglu í síðustu viku að yfirheyrslur vegna málsins fari fram í þessari viku. 

Samkvæmt núgildandi skráningu Ásmundarsalar hjá hlutafélagaskrá fellur starfsemin undir safnastarfsemi. Er sagt að umrætt kvöld hafi listaverkasala farið fram. Aðpurð segir Hulda Elsa Björgvinsdóttr, sviðsstjóri ákærusviðs hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að engin áhöld séu um það að í reglum um verslunaratvinnu séu uppboð skilgreind sem verslunarrekstur í 20. grein lagana. „Það fellur tvímælalaust undir verslunarrekstur að selja listmuni,“ segir Hulda Elsa. 

Salur eða Ásmundarsalur? 

Sé niðurstaðan sú að Ásmundarsalur sé verslun, breytir það stöðu eigenda gagnvart lögreglurannsókn. Í því tilfelli fellur staða salarins undir undanþágur skv. þágildandi  sóttvarnarlögum þar sem tilgreint er að tveggja metra regla þurfi að vera uppfyllt en að fimm manns megi vera á hverjum 10 fermetrum í tilteknu rými. Hafa eigendur í ljósi þessa haldið því fram að allt að 60 manns megi  vera í húsinu. Samkvæmt fasteignaskrá í þjóðskrá er Ásmundarsalur 320 fermertrar. Það segir hins vegar ekki alla söguna þar sem sögð listaverkasala var á efri hæð hússins. Samkvæmt því sem fram kemur í máli eigenda salarins máttu 35 manns vera í salnum umrætt kvöld en 50 manns í húsinu í stað 60 þar sem hluti þess var lokað.

Ásmundarsalur.
Ásmundarsalur. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Lögegla segir hins vegar í tilkynningu að á fimmta tug hafi verið í sal. Ekki kemur fram hvort um hafi verið að ræða sal á efri hæð eða hvort um hafi verið að ræða húsið sjálft sem vissulega er nefnt salur. Ljóst er að búkmyndavélar lögreglu munu koma að notum í rannsókninni. 

Hvort sem eigendur salarins hafi farið yfir fjöldamörk verður rannsókn að leiða í ljós. Hins vegar hafa eigendur þegar viðurkennt að eftirfylgni með grímuskyldu hafi verið ábótavant auk þess sem ekki hafi verið hugað nægilega að fjarlægðarmörkum. Í sóttvarnarreglum er tilgreint að skyldur séu á verslunarrými að framfylgja þessum þáttum.

Engar upplýsingar um brot á grímuskyldu eða fjarlægðarmörkum 

Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra eftir fyrirspurn mbl.is hafa frá 1. mars 2020 til 10 janúar sl. verið skráð 188 brot vegna brota gegn sóttvarnarlögum. Ná þau til 198 einstaklinga og 32 fyrirtækja. Á tímabilinu eru 49 mál komin í sektarmeðferð sem þýðir að til standi eða búið sé að sekta þann fjölda en 66% brota eru enn í rannsókn eða enn til afgreiðslu. Í 14% tilfella var ákveðið að sekta ekki. 

Ennfremur snéri fyrirspurnin að því í hve mörgum tilfellum sektað hafi verið vegna brota á grímuskyldu, brota á fjarlægðarmörkum og vegna brota á fjöldatakmörkunum. Fram kemur í svari ríkislögreglustjóra að ekki sé hægt að taka þessar upplýsingar úr málaskrá eftir eðli brotanna. Eingöngu sé hægt að sjá heildarfjölda brota á sóttvarnarlögum sem eru til rannsóknar eða er lokið. 

Þingmenn hafa borið grímur í þingsal á árinu.
Þingmenn hafa borið grímur í þingsal á árinu. Árni Sæberg

Þó segir að vitað sé til eins tilfellis þar sem aðili hafi verið sektaður vegna brota á grímuskyldu í nóvember síðastliðnum. Var sá aðili einnig sektaður fyrir annars konar sóttvarnarbrot. 

Staða Bjarna gagnvart löggjafanum 

Þá segir jafnframt að almennt hafi eigendur verið sektaðir en ekki gestir eða eftir atvikum kúnnar í þeim samkomum sem hafa verið stöðvaðar vegna brota á fjöldatakmörkunum. 

Sé það sett í samhengi við mál Bjarna Benediktssonar og annarra gesta Ásmundarsalar má ætla að stefnubreyting verði á málum hjá lögreglu verði þeir sektaðir fyrir brot á grímuskyldu, fyrir að vanvirða fjarlægðarmörk eða að hafa verið viðstaddir samkomu þar sem of margir voru samankomnir miðað við reglur. Ef þá niðurstaðan verður sú að of margir hafi verið í Ásmundarsal umrætt kvöld þann 23. desember sl. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert