Lægð á leið til landsins

Seyðisfjörður eftir að aurskriðurnar féllu.
Seyðisfjörður eftir að aurskriðurnar féllu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lægð sem er enn langt suður í hafi er á leið norðaustur og liggur braut hennar skammt suðaustur af landinu. Skil frá henni nálgast því landið úr suðri með austanhvassviðri og rigningu um sunnanvert landið síðdegis en hægari vindur verður norðan til á landinu og þykknar upp þar að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Ákveðin norðaustanátt í nótt og í fyrramálið, víða dálítil rigning eða slydda, en talsverð rigning fyrir austan. Inn til landsins og til fjalla má þó búast við að úrkoman sé í formi snjókomu. Síðan taka við stífar norðlægar áttir með kólnandi veðri, slyddu og síðar snjókomu fyrir norðan en styttir að mestu upp sunnanlands,“ segir enn fremur á vef Veðurstofu Íslands.

Gul viðvörun tekur gildi á Austfjörðum aðfaranótt laugardags og gildir til klukkan 15 á morgun, laugardag. „Talsverðri eða mikilli rigningu er spáð á Austfjörðum aðfaranótt laugardags og þangað til síðdegis á laugardag, dregur síðan úr úrkomuákefð.

Í ljósi aðstæðna er Seyðisfjörður viðkvæmur fyrir rigningu og Eskifjörður að einhverju leyti einnig. Spáð er uppsafnaðri úrkomu á Seyðisfirði um 50 mm á þeim tíma sem viðvörunin gildir. Byrjar mögulega sem slydda fyrsta klukkutímann, en hlýnar síðan heldur, megnið af tímanum slydda í yfir 200 m hæð yfir sjávarmáli og snjókoma yfir 300 m. Hlýnar svo eftir hádegi á laugardag og fer snjólína þá væntanlega upp í 800-900 m. Á Eskifirði er spáð uppsafnaðri úrkomu um 35 mm meðan viðvörunin gildir og slyddu- og snjólína þar um 50-100 m hærri en á Seyðisfirði.“

Veðurhorfur næstu daga

Sunnan 5-13 m/s og skúrir eða slydduél en léttskýjað á Norður- og Austurlandi. Gengur í austan 13-20 sunnanlands eftir hádegi með rigningu eða slyddu. Mun hægari vindur og lengst af þurrt á norðurhelmingi landsins. Norðaustan 10-18 í nótt og í fyrramálið. Talsverð rigning austan til en annars víða slydda eða rigning með köflum en snjókoma til fjalla. Hægari um tíma síðdegis á morgun og dregur úr úrkomu fyrir austan. Norðvestan 10-18 annað kvöld og slydda eða snjókoma, en úrkomulítið sunnanlands. Hiti 0 til 5 stig, en hiti kringum frostmark fyrir norðan.

Á laugardag:
Norðaustan 8-15 m/s, en vestlægari á sunnanverðu landinu. Víða dálítil rigning eða slydda á láglendi en snjókoma til fjalla. Talsverð rigning austanlands. Hiti 0 til 5 stig.

Á sunnudag:
Norðan 10-18 m/s, en hægari vindur austanlands. Slydda eða snjókoma á norðanverðu landinu, en úrkomulítið sunnan til. Hiti kringum frostmark.

Á mánudag og þriðjudag:
Ákveðin norðanátt með snjókomu eða éljum á norðurhelmingi landsins en þurrt að mestu og bjart með köflum sunnan heiða. Víða vægt frost.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Útlit fyrir norðlæga átt. Ákveðinn vindur og él norðan og austan til, en hægari og bjart sunnan og vestan til. Kalt í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert