Læknir Guðmundar: „Ég gleymi þessu aldrei“

Guðmundur Felix Grétarsson.
Guðmundur Felix Grétarsson. mbl.is/Golli

Brynjólfur Jónsson bæklunarskurðlæknir segir að hann aldrei hafi séð önnur eins meiðsli á einni manneskju á sínum 40 ára ferli og meiðsli Guðmundar Felix Grétarssonar. Guðmundur lenti í vinnuslysi árið 1998 og missti báða handleggi.

Hann er nú á gjörgæslu á sjúkrahúsi í Lyon í Frakklandi eftir að hafa gengist undir ágræðslu handleggja.

Framkvæmdi 54 aðgerðir

Eftir slys Guðmundar þann 12. janúar 1998 féll það í skaut Brynjólfs að hefja bataferil hans. Að eigin sögn framkvæmdi Brynjólfur 54 aðgerðir á Guðmundi, eitthvað sem hann mun aldrei gleyma. Brynjólfur segir að ef allt gengur að óskum sé aðgerð Guðmundar algjörlega byltingarkennd, en aldrei fyrr hafi handleggur verið græddur á mann að öxlunum meðtöldum, hvað þá tveir í einu.

„Þetta var það versta sem ég hef séð á mínum ferli,“ segir Brynjólfur í samtali við mbl.is.

Brynjólfur útskýrir að hann átti sig hreinlega ekki á því hvernig hægt sé að framkvæma aðgerð eins og þá sem Guðmundur gekkst undir í Frakklandi. Framþróun læknavísinda er að hans mati ótrúleg.

Brynjólfur hefur meðal annars starfað sem læknir íslenska landsliðsins í …
Brynjólfur hefur meðal annars starfað sem læknir íslenska landsliðsins í handbolta. mbl.is/RAX

„Ef rétt reynist og allt gengur eftir þá er þetta byltingarkennt, já. Það eru endalausar framfarir og einhvers staðar verður öll framþróun að byrja, en ég hef aldrei heyrt um að þetta væri yfir höfuð hægt.“

Brynjólfur bætir við að hann eigi erfitt með að skilja hvaðan gjafahandleggirnir komu og segir að þeir geti ekki hafa komið af látinni manneskju, eftir því sem hann best veit.

„Ef einhver deyr í bílslysi eða úr krabbameini þá eru handleggirnir bara dánir. Svona verður að koma af lifandi manneskju, frá einhverjum sem væri þá heiladauður en samt á lífi.“

„Ég gleymi þessu aldrei“

Brynjólfur segir að hann hafi sinnt Guðmundi mikið fyrstu mánuðina og árin eftir slysið. Fyrstu vikurnar vann Brynjólfur ótal yfirvinnutíma við að lækna Guðmund og segist aldrei munu gleyma því. Hann lýsir Guðmundi sem manni sem hefur ofurtrú á því að hann finni lausn við sínum vandamálum.

„Fyrstu mánuðina vann ég fleiri, fleiri yfirvinnutíma við þetta. Ég gerði á honum um 54 aðgerðir.“

En hversu langt er síðan þú talaðir síðast við hann?

„Ég veit það nú ekki. Ég myndi halda að það væru einhver tíu ár síðan. Ég vann mikið með honum fyrst en ekki svona í seinni tíð.“

Brynjólfur segir að það hljóti að taka mjög á fyrir bæði Guðmund og þá sem standa honum næst að ganga í gegnum jafnlangt og strangt ferli og Guðmundur hefur gengið í gegnum. Hann hefur búið í Lyon síðan 2013 þegar honum varð ljóst að mögulega yrði hægt að græða á hann handleggi.

„Nú er skrefi eitt lokið. Það er ekkert nóg að hafa bara handleggi, það þarf að ganga úr skugga um að þetta virki allt saman. Ég vona bara fyrir hans hönd að það gangi allt að óskum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert