Rýmt á Seyðisfirði vegna úrkomuspár

Gert er ráð fyrir mikilli úrkomu eftir miðnætti og á …
Gert er ráð fyrir mikilli úrkomu eftir miðnætti og á laugardag. Rýming fer fram í varúðarskyni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglustjórinn á Austurlandi hefur, í samráði við Veðurstofu Íslands og ríkislögreglustjóra, ákveðið að rýma ákveðin svæði á Seyðisfirði vegna úrkomuspár. Rýmingu á að vera lokið klukkan 22:00 í kvöld.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Austurlandi. Rýmingin varir fram á sunnudagsmorgun en þá verður staðan metin að nýju.

Mikilli úrkomu er spáð á Seyðisfirði frá miðnætti og á laugardag. Úrkoman mun samkvæmt spám byrja um klukkan 19 í kvöld og aukast skömmu eftir miðnætti. Draga á úr úrkomu síðdegis á laugardag.

Eftirtalin hús verða rýmd:

- Öll hús við Botnahlíð

- Múlavegur 37

- Baugsvegur 5

- Austurvegur 36, 38a,  40b, 42, 44, 44b, 46, 46b, 48, 50, 52,  54 og 56.

Fjöldahjálparstöðin verður opin um helgina

Fjöldahjálparstöðin í Herðubreið verður opin yfir helgi fyrir þá sem vantar húsnæði, akstur til Egilsstaða eða aðra aðstoð. Íbúar eru beðnir um að hringja í 1717 og skrá sig um leið og húsnæði hefur verið rýmt.

Rýmingin er lögð til í varúðarskyni þar sem óvissa ríkir um stöðugleika hlíðanna í Botnabrún eftir skriðuföllin í desember og viðbrögð jarðlaga við ákafri úrkomu.

„Reiknað er með að rýming vegna skriðuhættu á Seyðisfirði verði á næstu vikum lögð til í ákveðnum skrefum eftir því sem meiri reynsla fæst á stöðugleika hlíðarinnar. Þessi reynsla fæst með því að fylgjast með því hvernig jarðlög bregðast við úrkomu í kjölfar nýafstaðinnar skriðuhrinu og því er lögð til rýming við minni úrkomu til að byrja með en vænta má að síðar verði,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert