„Sennilega einn af hápunktum mannkynssögunnar“

Þorkell Harðarson og Örn Marinó Arnarsson leikstjórar standa að heimildarmyndum …
Þorkell Harðarson og Örn Marinó Arnarsson leikstjórar standa að heimildarmyndum um Guðmund ásamt Guðbergi Davíðssyni framleiðanda og fleirum. mbl.is/Arnþór

Þorkell Harðarson leikstjóri sem hefur fylgt Guðmundi Felix Grétarssyni, sem undirgekkst handleggjaágræðslu í fyrradag, eftir í tíu ár segir að fólk átti sig sennilega ekki á því afreki sem handleggjaágræðslan var. Um sé að ræða eitt af stærstu afrekum mannkynssögunnar. Þorkell ætlar nú að skapa aðra heimildarmynd um Guðmund ásamt Erni Marinó Arnarsyni leikstjóra og Guðbergi Davíðssyni framleiðanda.

„Fólk gerir sér ekki grein fyrir því hvað þetta er mikil aðgerð. Þetta hefur aldrei verið gert áður, fólk hefur ekki treyst sér í þetta,“ segir Þorkell og heldur áfram:

„Það var alveg afrek að koma manni til tunglsins og smíða hin og þessi tæki en það að setja nýjar hendur á mann og hann vaknar og hann lifir og eru allar líkur á að hann nái sér, þetta er sennilega einn af hápunktum mannkynssögunnar í að beita þekkingu til góðs.“

Skjáskot úr myndinni Nýjar hendur – innan seilingar.
Skjáskot úr myndinni Nýjar hendur – innan seilingar. Skjáskot

Ekki hægt að hætta

Þorkell og Örn leikstýrðu heimildarmynd um Guðmund sem var frumsýnd árið 2018 og Guðbergur framleiddi myndina. Hún bar heitið Nýjar hendur – Innan seilingar.

„Þetta var eitthvað sem átti að taka eitt og hálft til tvö ár en svo bara teygðist á þessu og allt venjulegt bissnessfólk væri hætt en við hættum ekki. Það er ekki hægt að hætta,“ segir Þorkell.

Þeir hafa því haldið áfram að fylgjast með Guðmundi og ætla nú að gera aðra mynd sem fjallar um batann eftir handleggjaágræðsluna. Umrædd aðgerð var framkvæmd í Lyon í Frakklandi. Þar hefur Guðmundur búið og beðið eftir aðgerð í um átta ár. Örn og Þorkell ætla sér út í fyrramálið en hafa verið með mannskap í Frakklandi í biðstöðu í sjö ár.

„Þegar kallið kom þurftum við því ekki að hlaupa til strax og við gátum sent kvikmyndatökumenn í Frakklandi af stað. Við erum búnir að gera mynd sem var að stórum hluta um bið og þrjósku. Nú verður vonandi til mynd um bata,“ segir Þorkell sem gerir ráð fyrir því að þeir Örn fylgi Guðmundi eftir næstu tvö árin um það bil.

Guðmundur Felix ásamt eiginkonu sinni Sylwiu Gretarsson Nowakowska sem hann …
Guðmundur Felix ásamt eiginkonu sinni Sylwiu Gretarsson Nowakowska sem hann kynntist úti í Lyon. Í heimildarmyndinni nýjar hendur – Innan seilingar er meðal annars að finna myndefni úr brúðkaupinu sem Þorkell var viðstaddur. mbl.is/Hari

Fylginn sér og sterkur andlega

Þorkell segir að Guðmundur sé fylginn sér, þó einhverjir myndu kalla hann þrjóskan. Þá sé Guðmundur sterkur andlega og þetta tvennt hafi líklega komið honum svo langt, hjálpað honum að verða fyrsti maður í heimi sem fær grædda á sig heila handleggi. Þannig segir Þorkell til dæmis að með því að flytja til Lyon hafi Guðmundur sett pressu á læknana.

„Ef hann hefði ekki haldið uppi þessari pressu er mjög líklegt að þetta væri enn að velkjast um í kerfinu því kerfi eru eins, sama hvort þau eru íslensk eða frönsk,“ segir Þorkell og bætir við:

„Guðmundur er sterkur andlega, það er ekki fyrir hvern sem er að taka þessa ákvörðun og fylgja þessu eftir.“

Þorkell segir ýmislegt sérstakt við aðgerðina. Til að mynda samstarf opinbers spítala og einkasjúkrahúss.  

„Þá týna þeir til sitt besta fólk á báðum stöðum og setja í þessa aðgerð. Þetta er engin smá aðgerð, það eru tugir manna sem koma að hvorri hlið. Þetta er tvöfalt teymi, hægra og vinstra teymi. Þeir sem sjá um vinstri hliðina eru búnir að æfa sig á henni og sjá bara um hana. Þannig var alla vega planið. Þegar við vorum þarna fyrir nokkrum árum eyddum við helgi í líkhúsinu í Lyon þar sem þeir æfðu sig að sauma handleggi á. Þetta er allt í myndinni,“ segir Þorkell.

Guðmundur Felix bregður á leik í borginni Lyon í Frakklandi.
Guðmundur Felix bregður á leik í borginni Lyon í Frakklandi.

Eins og að vera í þrektíma í margar klukkustundir

Aðgerðin tók um hálfan sólarhring en læknarnir gerðu ráð fyrir því að hún gæti tekið 24 til 40 klukkustundir. Þorkell segir að það að læknarnir hafi verið svo snarir í snúningum sýni hversu vel þeir hafi verið undirbúnir og þjálfaðir.

„Svæfingalæknir sem ég ræddi við sagði að það að fara í þessa aðgerð fyrir sjúklinginn sé eins og að vera í 40 klukkutíma þrektíma án þess að taka pásu, þetta er það mikið álag. Það er betra að klára þetta fyrr vegna þess að þetta er svo mikið álag á líkamann,“ segir Þorkell.

Færri klukkutímar í aðgerð verða því vonandi til þess að meiri líkur séu á góðum bata fyrir Guðmund. Þá segir Þorkell að læknarnir hefðu ekki framkvæmt aðgerðina nema þeir telji góðar líkur á því að hún heppnist vel. Guðmundur hafi verið sérstaklega góður kandídat, meðal annars vegna þess að hann var á ónæmisbælandi lyfjum.

„Eftir slysið eyðilagðist lifrin í honum. Í framhaldi af því þurfti hann að fá aðra lifur og er á þriðju lifrinni núna. Síðastliðna tvo áratugi hefur hann verið á ónæmisbælandi lyfjum. Það gerir það að verkum að hann getur farið í þessa aðgerð. Ef þú færir í þessa aðgerð án þess að vera á ónæmisbælandi lyfjum þá myndi líkaminn að öllum líkindum hafna þessu skilst mér,“ segir Þorkell.

Gæti hjálpað öðrum

Hann ítrekar að aðgerðin sé stórt skref í læknavísindunum.

„Það hafa alls konar ljón verið í veginum en Guðmundur hefur einhvern veginn komist í gegnum þetta og sjúkrahúsin og yfirlæknarnir, hafa staðið mjög þétt við bakið á honum og siglt ýmsu í gegn sem venjulegt fólk hefur engan séns á. Þetta er mjög stór dagur fyrir læknavísindin. Ef þetta gengur allt upp þá ert komið nýtt viðmið. Það gæti mögulega rutt braut fyrir enn nýrri viðmið. Fólk sem er í svipaðri stöðu og fær ekki úrlausn sinna mála gæti færst nær betra lífi,“ segir Þorkell og bætir því við að þó Guðmundur haldi einungis handleggjum að olnboga batni lífsgæði hans til muna miðað við það sem áður var.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert