Spennt að hefja nýtt ævintýri með meira frelsi

Sylwia Gretarson Nowakowska og Guðmundur Felix Grétarsson á góðri stundu.
Sylwia Gretarson Nowakowska og Guðmundur Felix Grétarsson á góðri stundu. Ljósmynd/Foto Miko

Sylwia Gretarsson Nowakowska, eiginkona Guðmundar Felix Grétarssonar sem fékk græddar á sig handleggi í fyrradag, segir þau spennt að hefja nýtt ævintýri með meira frelsi. Hún biður fyrir góðum kveðjum til Íslendinga frá Guðmundi sjálfum sem segir að þetta hefði ekki verið mögulegt án stuðnings þjóðarinnar.

 „Ég er mjög spennt. Við fáum góðar fréttir daglega, frá okkar sjónarhorni. Aðgerðin gekk eins vel og mögulegt var, eins vel og þeir gátu ímyndað sér. Þeir byrjuðu að vekja Felix í gær sem er aðeins fyrr en þeir ætluðu. Ég talaði við Felix fyrir nokkrum mínútum og hann hljómaði mjög hamingjusamur,“ segir Sylwia í samtali við mbl.is.

„Felix vill skila innilegum þökkum til Íslendinga fyrir allan stuðninginn. Þegar ég talaði við hann í morgun sagði hann að ef hann hefði ekki haft Íslendinga með sér í þessari vegferð hefði þetta ekki verið mögulegt.“

Á byrjunarreit á löngu ferli

Sylwia tekur fram að það muni taka tíma fyrir Guðmund Felix að kynnast höndunum og enn sé ekki hægt að segja til um það hvort hann finni fyrir þeim.

„Ég er ekki með neinar frábærar fréttir um handleggina, hvort hann geti fundið fyrir þeim. Á þessu stigi er mjög erfitt að meta ástandið og við erum á byrjunarreit á löngu ferli. Hann er með handleggina núna en það mun taka nokkra mánuði fyrir hann að kynnast þeim og tengjast þeim.“

Guðmundur Felix og fjölskylda hans fengu upplýsingar um að aðgerðin gæti mögulega farið fram síðastliðið mánudagskvöld.

„Okkur var sagt að við þyrftum að bíða fram á næsta dag til þess að fá loka samþykki. Við höfum nokkrum sinnum áður fengið svona símtöl en því miður hafa vonbrigði alltaf fylgt þeim. Við biðum eftir þessu í svo langan tíma, sérstaklega Felix. Upplýsingar um þennan gjafa komu nákvæmlega 23 árum eftir að hann lenti í slysinu svo þetta hefði ekki getað verið sérstakara,“ segir Sylwia.

„Við bíðum núna bara eftir góðum fréttum, reiðum okkur á …
„Við bíðum núna bara eftir góðum fréttum, reiðum okkur á tæknina og ræðum oft saman í síma,“ segir Sylwia. Ljósmynd/Foto Miko

Lífið á bið

Guðmundur Felix hefur beðið í um átta ár eftir aðgerðinni. Spurð hvort biðin hafi verið þeim erfið segir Sylwia:

„Já, hún var það. Hún var orðin löng og hefur sett okkur takmörk hvað varðar ferðalög. Við höfum því ekki getað mætt á fjölskylduviðburði eins og jól fyrir Felix og hann hefur ekki getað hitt barnabörnin sín. Þetta hefur auðvitað sett alls konar takmarkanir á okkur. Biðin var erfið og setti líf okkar eiginlega á bið,“ segir Sylwia og heldur áfram:

„Við gátum ekki gert ýmis plön, fyrir aðgerðina gat hann varla ferðast frá Lyon því það hefði getað minnkað líkur á því að hann fengi handleggi. Það sem er spennandi finnst mér er að nú er þessari bið lokið og nú getum við hafið nýtt ævintýri með auknu frelsi. Til að byrja með verður frelsið ekkert svo mikið vegna þess að Felix verður til að byrja með ekki fær um að gera ýmislegt sem hann gat gert fyrir aðgerðina.“

Reiða sig á tæknina

Fjölskylda Guðmundar Felix hefur ekki getað hitt hann eftir aðgerðina vegna Covid-19. Hann er nú á gjörgæslu.

„Við bíðum núna bara eftir góðum fréttum, reiðum okkur á tæknina og ræðum oft saman í síma,“ segir Sylwia.

mbl.is