Yfir 21 þúsund án vinnu

Vinnumálastofnun spáir auknu atvinnuleysi í janúar.
Vinnumálastofnun spáir auknu atvinnuleysi í janúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Almennt atvinnuleysi var 10,7% í desember og jókst úr 10,6% í nóvember. Atvinnuleysið var 9,9% í október, 9,0% í september og 8,5% í ágúst. Vinnumálastofnun spáir því að almennt atvinnuleysi aukist í janúar og verði á bilinu 11,3% til 11,7%.

Atvinnuleysi tengt minnkuðu starfshlutfalli var svipað í desember og í nóvember eða um 1,4% en í þeim hópi fækkaði um 340 frá nóvember. Atvinnuleysi tengt minnkuðu starfshlutfalli var 1,2% í október og 0,8% í september og hafði þá minnkað mikið frá því í vor. Einungis 20% þeirra sem fengu hlutabætur á árinu 2020 hafa aftur komið inn á atvinnuleysisskrá.

Alls voru 21.365 einstaklingar atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok desembermánaðar og 5.108 í minnkaða starfshlutfallinu, eða samtals 26.473 manns. Samanlagt atvinnuleysi í almenna bótakerfinu og minnkaða starfshlutfallinu var 12,1% í desember.

Alls höfðu 4.213 hefðbundnir atvinnuleitendur verið án atvinnu í meira en 12 mánuði í lok desember, en voru 1.648 í desemberlok 2019. Hefur þeim því fjölgað um 2.565 milli ára. Þeim sem verið hafa atvinnulausir í 6-12 mánuði fer einnig fjölgandi, voru 6.661 í lok desember en 2.172 fyrir ári. Alls luku 87 einstaklingar bótarétti sínum í desember. Bótatímabil atvinnuleysisbóta er 30 mánuðir og mun því núverandi atvinnuástand ekki valda mikilli sveiflu í fjölda þeirra sem ljúka bótarétti sínum til skemmri tíma litið.

24% atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara

Alls voru 8.728 erlendir hefðbundnir atvinnuleitendur (án minnkaðs starfshlutfalls) án atvinnu í lok desember. Þessi fjöldi samsvarar um 24% atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara. Auk hefðbundinna atvinnuleitenda voru einnig erlendir ríkisborgarar á hlutabótaleið eða alls 1.532 og má gera ráð fyrir að heildaratvinnuleysi erlendra ríkisborgara hafi verið nálægt 27,0% í nóvember. Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá er nú um 41%.

Flestir erlendir ríkisborgarar á atvinnuleysisskrá án minnkaðs starfshlutfalls komu frá Póllandi eða 4.262 sem er um helmingur allra erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá. Því næst koma Litháar, Lettar og Rúmenar en færri af öðrum þjóðernum.

23,3% atvinnuleysi á Suðurnesjum

Samanlagt atvinnuleysi í almenna kerfinu og í minnkaða starfshlutfallinu jókst alls staðar á landinu nema á höfuðborgarsvæðinu þar sem það var óbreytt. Hlutfallslega jókst það minnst á Austurlandi, Suðurnesjum og Norðurlandi eystra.

Á Suðurnesjum fór heildaratvinnuleysið úr 22,8% í nóvember í 23,3% í desember og var mest á landinu. Þar er atvinnuleysið mun meira meðal kvenna en karla, eða 26,2% alls hjá konum en 21,4% hjá körlum þegar horft er á heildaratvinnuleysið. 

Á Norðurlandi eystra jókst það úr 9,1% í nóvember í 9,4% í desember og á Austurlandi úr 7,9% í nóvember í 8,1% í desember. Mesta atvinnuleysið var á Suðurnesjum eða 23,3% og næstmest á höfuðborgarsvæðinu eða 12,0%. Minnsta atvinnuleysið var á Norðurlandi vestra 5,4% og á Vestfjörðum 5,6%.

Atvinnuleysi er meira meðal kvenna en karla á flestum svæðum nema á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi eystra. Á Norðurlandi vestra er það svipað hjá körlum og konum.

Mikil fjölgun atvinnulausra í yngsta hópnum

Alls voru 2.287 hefðbundnir atvinnuleitendur á aldrinum 18-24 ára án atvinnu í lok desember í ár. Atvinnulausum ungmennum hefur fjölgað um 1.277 frá desember 2019 þegar fjöldi atvinnulausra á þessu aldursbili var 1.010 en hefur fjölgað um 47 frá nóvember s.l.

Atvinnulausum fjölgaði í öllum atvinnugreinum í desember 2020 frá desember 2019. Mesta fjölgunin meðal hefðbundinna atvinnuleitenda var í ferðatengdri starfsemi, m.a. í farþegaflutningum, gistiþjónustu svo og í menningartengdri þjónustu en minnst í sjávartengdri starfsemi, byggingariðnaði, upplýsingatækni, fjármála- og tryggingastarfsemi auk þjónustu og verslun og vöruflutningum.

Að því er varðar fjölda atvinnulausra eftir starfsstéttum þá fjölgaði atvinnulausum mest meðal skrifstofufólks, sérmenntaðra og starfsmanna við ýmis þjónustustörf. Minnsta aukning atvinnulausra eftir starfsstéttum var meðal starfsmanna í sjávarútvegi, verkafólks, iðnaðarmanna og við sölu- og afgreiðslustörf.

Alls komu inn 118 ný störf sem auglýst voru í vinnumiðlun hjá Vinnumálastofnun í desember. Um nokkuð fjölbreytt störf var að ræða, mest stjórnunar-, sérfræði- eða skrifstofustörf eða um 47 störf.

Alls bárust 3 tilkynningar um hópuppsagnir í desember, þar sem 137 starfsmönnum var sagt upp störfum, 94 í þjónustustarfsemi ýmiss konar, 32 í iðnaði og 11 í flutningastarfsemi.

Hér er hægt að lesa nánar um atvinnuleysi á Íslandi

mbl.is