„Ég er orðinn handhafi“

Guðmundur Felix Grétarsson ávarpaði vini sína á Facebook fyrr í …
Guðmundur Felix Grétarsson ávarpaði vini sína á Facebook fyrr í dag. Skjáskot/Facebook

Guðmundur Felix Grétarsson segir að aðgerð þar sem græddar voru á hann tveir handleggir í Frakklandi í vikunni hafi gengið vel. Hann ávarpar vini sína á Facebook í stuttu myndbandi frá sjúkrahúsinu í dag.

„Halló kæru vinir og fjölskylda. Eins og þið kannski vitið er ég ekki handlangari lengur. Ég er orðinn handhafi og þetta gekk allt saman rosalega vel. Ég má ekki sýna þetta strax vegna þess að það eru ákveðnar reglur í gangi og ég þarf að fylgja þeim,“ segir Guðmundur Felix.

Honum hafa borist fjölmargar kveðjur og heillaóskir eftir að aðgerðin fór fram og fyrir þær er hann þakklátur. „Þakka ykkur kærlega fyrir allan stuðninginn. Merci beaucoup,“ segir Guðmundur.

Guðmundur Felix ásamt eiginkonu sinni Sylwiu Gretarsson Nowakowska sem hann …
Guðmundur Felix ásamt eiginkonu sinni Sylwiu Gretarsson Nowakowska sem hann kynntist úti í Lyon, þar sem hann hefur beðið eftir aðgerðinni árum saman. mbl.is/Hari

Blaðamannafundur um sögulega aðgerð

Aðgerðin er viðburður í sögu læknisfræðinnar þar sem aldrei áður hafa verið græddir tveir heilir handleggir á sjúkling sem hafði enga fyrir. Guðmundur missti báða handleggi í vinnuslysi árið 1998 og hefur beðið aðgerðarinnar í mörg ár. Loks gafst færi á að gangast undir hana og gerði hann það.

Að sögn Guðmundar verður haldinn blaðamannafundur bráðlega þar sem hann og læknarnir fara yfir það sem á undan er gengið.

Myndbandið má sjá hér:

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert