Engin innanlandssmit í gær

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engin innanlandssmit greindust í gær, en fjögur smit greindust við landamæri. Þetta staðfestir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.

Á síðustu vikum hefur stór hluti smita greinst við landamæri og því segist Þórólfur afar ánægður með nýjar sóttvarnareglur sem tóku gildi á landamærum í dag, en frá og með deginum í gær verður þeim sem koma til landsins gert skylt að fara í skimun á landamærum.

mbl.is

Þórólfur segir að reglurnar lágmarki hættuna á að smit berist til landsins, en mörg dæmi séu um að þeir sem hafi kosið að fara í 14 daga sóttkví í stað skimunar hafi ekki haldið sóttkví.

„Þarna voru miklir möguleikar á að við gætum fengið smit inn, og við vildum reyna að loka fyrir það, sérstaklega núna þegar útbreiðslan á faraldrinum erlendis er svona mikil og að það séu svona margir að greinast á landamærunum,“ segir Þórólfur.

Að sögn Þórólfs var um 1% þeirra sem komu til landsins smitað, en í sumum vélum var hlutfallið allt að 10%.

Ákveðið hefur verið að setja ekki áfram inn tölulegar upplýsingar um fjölda smita vegna Covid-19 um helgar.

Næstu tölur koma því inn á vefinn covid.is á mánudag, 18. janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert