Líkamsárás og félaus þjófur

mbl.is/Eggert

Tilkynnt var til lögreglu um líkamsárás á Seltjarnarnesi í nótt. Ungur maður var handtekinn grunaður um árásina og hann vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Í dagbók lögreglu kemur fram að hún viti ekki um áverka þess sem varð fyrir árásinni.

Á tólfta tímanum í gærkvöldi var tilkynnt um þjófnað á spjaldtölvu (Ipad) í Austurbænum (hverfi 108). Sá sem tilkynnti um þjófnaðinn hafði upplýsingar um geranda og fóru lögreglumenn að heimili hans. Er lögreglumenn komu að heimilisfanginu var þjófurinn þar fyrir utan í leigubifreið, gat ekki greitt fyrir aksturinn og var því einnig kærður fyrir fjársvik. Spjaldtölvan komst aftur í réttar hendur.

Alls voru þrettán ökumenn stöðvaðir fyrir brot á lögum af ýmsu tagi, flestir fyrir akstur undir áhrifum vímuefna og eða akstur án gildra ökuréttinda eða tíu ökumenn. Önnur brot voru varsla fíkniefna, hraðakstur og útrunnið ökuskírteini. Sá sem ók of hratt var á meira en tvöföldum hámarkshraða og margir þeirra sem voru undir áhrifum vímuefna höfðu ítrekað verið stöðvaðir fyrir akstur án gildra ökuréttinda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert