„Stimplaður helvítis Reykvíkingur“

„Ég er eiginlega alls staðar að á Íslandi,“ segir Þorkell …
„Ég er eiginlega alls staðar að á Íslandi,“ segir Þorkell Ágúst Óttarsson kvikmyndagerðarmaður sem þó er fæddur í Hveragerði en játar að Vestmannaeyjar standi reyndar hjarta hans næst þrátt fyrir sárar minningar æskuáranna. Ljósmynd/Aðsend

„Það er voðalega erfitt að svara því hvaðan ég er af Íslandi því við vorum alltaf að flytja,“ segir Þorkell Ágúst Óttarsson, búsettur í Drammen í Noregi, þar sem hann starfar með fólki sem ratað hefur á refilstigu í neyslu vímuefna. Þorkell lifir þó tvöföldu lífi því í frístundum er hann farsæll kvikmyndagerðarmaður og hefur sópað til sín verðlaunum á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum, nú síðast fyrir kvikmyndina Charming Men Part 1 – Julie, sem er fyrsti hluti þríleiks, og stuttmyndina Across the River, en sú fyrrnefnda hefur hlotið 20 verðlaun þegar þetta er skrifað og hin 17.

Meira um kvikmyndagerð Þorkels síðar í viðtalinu því annað þykir ótækt en að gera æsku hans og uppvexti á Íslandi nokkur skil.

Þrátt fyrir vandræðagang um eiginlegan uppruna sinn á landi elds og ísa getur Þorkell þó slegið því föstu að hann hafi fæðst í Hveragerði það herrans ár 1969. „Móðir mín giftist alkóhólista sem var sífellt að koma sér í vandræði svo við vorum alltaf að flýja frá einum stað til annars,“ segir hann frá.

„Hata og elska Vestmannaeyjar“

„Þannig að ég er eiginlega alls staðar að á Íslandi, búinn að búa úti um allt, en þeir staðir sem ég hef búið hvað lengst á eru Reykjavík og Vestmannaeyjar.“ Þorkell flutti tíu ára gamall til Vestmannaeyja, 1979, og bjó þar tæpan áratug. „Þannig að ég hef nokkuð sterkar rætur þangað, var þar á tímabili ævi minnar sem er auðvitað mjög mótandi í uppeldi. Ég hafði búið í Reykjavík í nokkur ár áður en ég fór til Vestmannaeyja og svo bjó ég í Reykjavík eftir það,“ segir hann og bætir því við að ætli blaðamaður að þvinga hann til að nefna einhvern einn stað sem sinn upprunapunkt væru það líklega Vestmannaeyjar.

Með bernskuvinunum Magnúsi Guðmundssyni og Gunnari Ásgeirssyni á bekkjarmóti í …
Með bernskuvinunum Magnúsi Guðmundssyni og Gunnari Ásgeirssyni á bekkjarmóti í Eyjum vorið 2018. Ljósmynd/Aðsend

Þangað hlýtur að hafa verið forvitnilegt og eftirminnilegt að flytja sem barn svo skömmu eftir þær náttúruhamfarir sem Eyjamenn máttu reyna fyrir tæpum 50 árum, í janúar 1973. Var ekki svo?

„Sko, ég bæði hata og elska Vestmannaeyjar,“ svarar Þorkell og hlær innilega. „Ég elska náttúruna þar, en þegar ég kem þangað, og við flytjum frá Reykjavík, var rosalega mikil biturð gagnvart Reykvíkingum í Vestmannaeyjum. Reykvíkingar hefðu komið þarna eftir gos til að ræna og rupla og það var svona einhver minnimáttarkennd í loftinu eins og oft er gagnvart stærri stöðum,“ rifjar Þorkell upp.

„Ég var stimplaður helvítis Reykvíkingur svo það var nú ekki þannig að Vestmannaeyingar hefðu tekið mér opnum örmum,“ segir hann frá og smitandi hláturinn gellur á ný. Þorkell segist hafa upplifað töluvert einelti og fjandskap þegar hann flutti tíu ára gamall til Eyja.

„En í dag skil ég menningu Vestmannaeyja auðvitað miklu betur en ég gerði sem krakki, ég var neikvæður gagnvart Eyjamönnum vegna þess hvernig tekið var á móti mér og svo bætti stjúpfaðir minn auðvitað ekki úr skák sem var að lenda í alls konar klúðri þarna í Eyjum og kom óorði á fjölskylduna,“ segir Þorkell.

Byrjaði að gella og kinna

Hann finnur þó titring í gömlum streng, eins og segir í ljóðinu, þegar hugurinn hvarflar til Vestmannaeyja, enda nýbúinn að lýsa því yfir að þar sé hvort tvegga á ferð ástar- og haturssamband. „Maður fær auðvitað aldrei nóg af Vestmannaeyjum, náttúrufegurðin þarna er ólýsanleg og ekki til sá staður á Heimaey sem ég hef ekki labbað um mörgum sinnum.

Norska leikkonan Mia Maria Hauge Wadsworth í hlutverki sínu sem …
Norska leikkonan Mia Maria Hauge Wadsworth í hlutverki sínu sem Julie í kvikmynd Þorkels, Charming Men Part 1 – Julie, sem er önnur kvikmynd hans í fullri lengd. Ljósmynd/Aðsend

Og svo svona í eftirátíð er ég óskaplega hrifinn af mörgu í menningunni þarna, til dæmis tónlistinni, og svo eru Vestmannaeyingar auðvitað mjög miklir karakterar,“ segir Þorkell og fær hugheilar undirtektir blaðamanns sem á að baki sex stórskemmtilegar Þjóðhátíðir á tíunda áratug liðinnar aldar. „Vestmannaeyjar munu alltaf eiga stóran hluta af hjarta mínu,“ lýkur Þorkell frásögninni af þeim kafla ævi sinnar.

Ýmis störf hafa farið um hendur Þorkels um ævina, en eins og að líkum lætur tengdust fyrstu skref hans á vinnumarkaði gullinu úr greipum Ægis enda búsettur í Eyjum er þau voru stigin. „Ég byrjaði eins og flestir í Vestmannaeyjum að vinna í fiski, byrjaði að gella og kinna þegar ég var tíu ára og beita. Svo fór ég að vinna við saltfisk og annað sem var nú frekar ömurleg vinna ef þú spyrð mig. Ég hætti snemma í skóla út af heimilisaðstæðum auk þess sem mér bara leið ekki vel og ég held að saltfiskurinn hafi bjargað mér frá því að gefast alveg upp á námi því ég hafði ekki áhuga á því að eyða ævi minni þar,“ segir Þorkell í léttum dúr.

Enginn kvikmyndaskóli á Íslandi

Óhætt er að segja að ýmislegt hafi drifið á daga kvikmyndagerðarmannsins í kjölfar búsetu hans í Eyjum. Hann flutti til Neskaupstaðar þar sem hann starfaði með unglingum, rak þar unglingamiðstöð, áður en leiðin lá til höfuðstaðarins þar sem Þorkell starfaði við hreingerningar og stofnaði ljóðahóp.

„Ég var virkur í ljóðaskrifum og hugmyndin hjá mér þá var að verða rithöfundur. Ja, eða valið stóð reyndar á milli þess að verða kvikmyndagerðarmaður eða rithöfundur en á þessum tíma var enginn kvikmyndaskóli á Íslandi svo ég ákvað bara að gerast rithöfundur,“ segir Þorkell frá því tímabili ævi sinnar þegar hinar skapandi greinar leystu sjávarútveginn af hólmi, kannski dálítið í ætt við þau orð Kiljans í Brekkukotsannál að þar sem blautfiskinum sleppir á Íslandi tekur latínan við.

Baksviðs sem tökumaður við gerð myndar Raymond Dullum, Suicide Box. …
Baksviðs sem tökumaður við gerð myndar Raymond Dullum, Suicide Box. „Raymond er mín hægri hönd í öllu. Við erum í raun fasti kjarninn í Gloomy Elk. Hann skrifaði handritið að Charming Men með mér, öllum þremur myndunum, og hefur hjálpað mér bak við næstum allar myndirnar mínar. Ég hef einnig hjálpað honum. Í þessari mynd var ég upptökumaður,“ segir Þorkell af samstarfi þeirra félaga. Ljósmynd/Aðsend

Reyndar var Þorkell hugfanginn af Nóbelsskáldinu og segist hafa sannfærst um þá köllun sína að verða rithöfundur þegar hann las Heimsljós, lífs- og þroskasögu krossberans Ólafs Kárasonar Ljósvíkings. „Ég var alveg sannfærður um það að þetta væri bók um mig,“ segir Þorkell og skellihlær.

Ekki varð þó rithöfundarferillinn lifibrauðið en í staðinn hleypti Þorkell heimdraganum og flutti til Albaníu árið 1992 þar sem hann dvaldi í eitt ár. Þaðan sneri hann kvæntur maður og taldi þá ekki annað tækt en að ganga menntagyðjunni á hönd. Hann lauk því sem eftir var af stúdentsnámi og munstraði sig í guðfræði við Háskóla Íslands.

Seldi íbúðina og flutti til Noregs

„Guðfræðin heillaði mig, í henni er svo mikil menning. Samt langaði mig ekkert að verða prestur, miklu frekar að fara að kenna eða skrifa bækur,“ segir Þorkell sem lauk BA-prófi og hálfu MA-námi að auki. Hann segist fljótt hafa áttað sig á því að leiðin að háskólakennslu væri þyrnum stráð, kostaði gríðarmikla vinnu og gæfi til að byrja með ekki af sér burðug laun.

„Ég var þarna kominn með þrjú börn og sá í hendi mér að ef ég ætlaði að standa við fyrri áætlanir yrði ég að fórna því mikið til að koma að uppeldi barnanna og það var eitthvað sem ég var ekki tilbúinn að gera,“ játar hann.

Fáeinum árum fyrir bankahrunið annálaða var staðan sú að þau hjónin bjuggu í tveggja herbergja íbúð í Reykjavík með þrjú börn, þurftu helst að stækka við sig, en þar fylgdi sá böggull skammrifi að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu var á stjórnlausri uppleið. „Ég ákvað þá að selja íbúðina og flytja til Noregs, áður en allt myndi hrynja, og reyndar liðu ekki nema nokkur ár frá því að ég flutti, þá hrundi allt,“ segir Þorkell, minnugur stórviðburða ársins 2008, en þau fjölskyldan fluttu til Noregs 2004, til Drammen, skammt frá Ósló, þar sem þau hafa verið æ síðan.

Baksviðs í baði, tómu að vísu, við gerð Suicide Service …
Baksviðs í baði, tómu að vísu, við gerð Suicide Service árið 2016, fyrstu myndar Þorkels í fullri lengd sem frumsýnd var árið eftir. Ljósmynd/Aðsend

Þar með hófst ferill Þorkels sem kvikmyndagerðarmanns þótt dagvinna hans snúist um að greiða leið vímuefnasjúklinga gegnum lífið.

„Það var þannig að á leiðinni frá Íslandi til Noregs kaupi ég mér vídeókameru og byrja þá að búa til stuttmyndir, aðallega bara fyrir sjálfan mig, án handrits eða nokkurs skapaðs hlutar, ég var aðallega bara að leika mér og prófa mig áfram,“ rifjar hann upp árdaga ferils síns. Ekki hafi þó verið hlaupið að því að setjast á skólabekk í norskum kvikmyndaskóla með stóra fjölskyldu og í fullu starfi til að eiga fyrir saltinu í hinn annálaða graut.

Hryllingur að sækja um styrki

„Ég byrjaði að læra á eigin spýtur, fullt af fólki hefur hoppað í djúpu laugina og gert það. Ég fór bara að gera myndir og svo vatt þetta upp á sig,“ segir Þorkell og ýkir ekki, eftir hann liggja nú 19 kvikmyndir, þar af tvær í fullri lengd, áðurnefnd Charming Men, sem var að hljóta sín tuttugustu verðlaun, og Suicide Service frá 2017 sem hlaut dómnefndarverðlaun alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar The Monkey Bread Tree það sama ár.

„Í staðinn fyrir að reyna að fá styrki sem mér finnst hryllilega leiðinlegt að sækja um og bíða eftir hef ég reynt að kaupa sjálfur öll tæki og tól sem ég þarf á að halda og reynt að læra allt frá a til ö, ég skrifa handrit, ég kvikmynda, ég klippi, ég sé um hljóðvinnu, ég framleiði og leikstýri og stend algjörlega að allri vinnslunni sjálfur. Ég held að það sé mjög hollt fyrir kvikmyndagerðarmann að kunna alla þessa þætti og þarna settist ég í rauninni bara niður, bretti upp ermarnar og lærði þetta,“ segir Þorkell af festu.

„Mér finnst alveg út í hött að ætla að vera …
„Mér finnst alveg út í hött að ætla að vera góður leikstjóri án þess að hafa nokkurt vit á klippingu, því þú ert alltaf að leikstýra fyrir klippinguna, þú ert alltaf að pæla í því hvort hægt sé að klippa það saman sem þú varst að kvikmynda. Ef þú hefur ekkert komið að klippingu og kannt ekki að leysa vandamál sem koma upp í klippingu þá veistu ekki hvernig þú þarft að haga tökunum svo það sé hægt að klippa þær saman,“ segir Þorkell sem er sjálflærður í öllum hlutverkum við kvikmyndagerð. Ljósmynd/Aðsend

Svo dæmi sé tekið þyki honum ómissandi sem leikstjóra að kunna að klippa og þekkja þær áskoranir sem því fylgi. „Mér finnst alveg út í hött að ætla að vera góður leikstjóri án þess að hafa nokkurt vit á klippingu, því þú ert alltaf að leikstýra fyrir klippinguna, þú ert alltaf að pæla í því hvort hægt sé að klippa það saman sem þú varst að kvikmynda. Ef þú hefur ekkert komið að klippingu og kannt ekki að leysa vandamál sem koma upp í klippingu þá veistu ekki hvernig þú þarft að haga tökunum svo það sé hægt að klippa þær saman,“ útskýrir Þorkell aukavinnuna sína sem þó hljómar eins og miklu meira en fullt starf.

Og talandi um fullt starf, í hverju felst þá hans aðalstarf á vettvangi þeirra sem höllum fæti standa í lífinu?

„Ég er að vinna með fólk sem er í daglegri neyslu. Hér eru auðvitað staðir sem hjálpa fólki að hætta, þar sem er hægt að leggjast inn í einhvern tíma og fara í afeitrun, en ég er sem sagt að vinna með það sem gerist á undan því og er byggt á módeli eða hugmyndafræði sem kallast „Housing First“.

Þegar ég var að alast upp var viðkvæðið alltaf „þetta eru bara aumingjar, fólk þarf bara að finna botninn og þegar það er búið að fá nóg þá getum við farið að hjálpa því,“,“ útskýrir Þorkell.

Byrja á að búa til öryggi

Hann segir Housing First snúa þeim hugmyndum á hvolf, kenningin þar sé sú að fólk sem sjái enga von og sé hreinlega á götunni hafi enga ástæðu til að snúa sér frá neyslu. „Þú þarft að byrja á því að búa til öryggi, skaffa heimili, búa til strúktúr og sýna fram á að það sé hægt að lifa eðlilegu lífi. Þegar þú ert búinn að gera þetta þá geturðu fyrst byrjað að tala um að fara í meðferð,“ segir Þorkell.

Við gerð Suicide Service árið 2016, Þorkell lengst til vinstri. …
Við gerð Suicide Service árið 2016, Þorkell lengst til vinstri. Við gerð myndarinnar fékk hann bandarískan leikara og leikstjóra til að koma til Noregs og dvelja þar í tvo mánuði gegn fæði og húsnæði eingöngu og var það auðsótt mál. Ljósmynd/Aðsend

Hans daglega starf felst í svokallaðri lágþröskuldsvinnu (n. lavterskel) sem snýst um að aðstoða fíkla við að sjá tilgang og þá möguleika sem þeim standi til boða. Sjálfur hafi hann haldbæra innsýn í heim fíknarinnar, alinn upp með áfengissjúkling á heimilinu auk þess sem bróðir Þorkels, sem nú er nýlátinn, hafi verið í neyslu. „Maður hefur alveg fengið að sjá það um dagana hversu illa neysla getur farið með fólk,“ segir Þorkell og dregur engar dulur á.

Við tökum upp léttara hjal og talið beinist að kvikmyndum Þorkels á ný sem hann framleiðir undir merkjum fyrirtækis síns sem heitir því frumlega nafni Gloomy Elk. Þorkell er með fjölda leikara á sínum snærum, en nær að framleiða verðlaunamyndir fyrir lágar upphæðir. Hvernig gengur slík leikaraflóra upp við gerð mynda sem kosta varla neitt í framleiðslu?

„Jáááá,“ dregur leikstjórinn seiminn, „ég stóð frammi fyrir því að mig langaði að gera kvikmyndir, en ég vissi ekki nákvæmlega hvað væri best að gera til að koma mér áfram. Þá datt mér í hug að það væri kannski sniðugt að reyna að safna í kringum mig fólki sem hefði líka áhuga á að búa til kvikmyndir og við myndum svo hjálpa hvert öðru. Í staðinn fyrir að borga laun væri hægt að hóa í fólk og við gæfum svo okkar vinnu innbyrðis, í báðar áttir, og þannig varð Gloomy Elk til,“ segir Þorkell frá tilurð fyrirtækis síns.

Rammi úr kvikmyndinni Suicide Service. „Þetta er mynd um lækni …
Rammi úr kvikmyndinni Suicide Service. „Þetta er mynd um lækni sem tekur að sér að aðstoða fólk við að fyrirfara sér og elskhuga hans sem tekur þátt í þessu með honum. Við kynnumst viðskiptavinum þeirra og þeim aðstæðum sem knýja fólk til þess að taka þessa ákvörðun. Ég er fyrst og fremst að takast á við þann tvískinnung sem einkennir allt siðgæði. Við höldum fast við siðferðishugmyndir okkar á meðan það hentar okkur en þegar á reynir erum við oftar en ekki tilbúin til að selja öll prinsipp,“ sagði Þorkell í viðtali við klapptre.is um Suicide Service 6. júní 2017. Ljósmynd/Aðsend

Hann segist reyndar vera sá innan hópsins sem hafi framleitt mest og gert mest á vettvangi kvikmyndagerðarinnar, „svo ég hef kannski grætt mest á því,“ segir hann og hlær við.

Fékk bandarískan leikara gegn mat og uppihaldi

Ýmissa grasa kenni svo þegar kemur að tegundum kvikmynda úr smiðju Þorkels. „Ég hef verið að fást við ýmsar tegundir, sumt af þeim er það sem kallast avant-garde eða listrænar kvikmyndir, þó nokkuð mikið af drama og eins bara þriller eða það sem í raun nálgast hrylling, en oftast á ég voðalega erfitt með að halda mig innan ákveðinna genre-a [efnisgerða] sem gerir það að verkum að það er stundum dálítið erfitt að selja því fólk vill yfirleitt fá hreint drama, hreinan hrylling eða hreinan þriller og svo framvegis, en flestar myndirnar mínar eru einhvers konar nálganir, ég hef gert tvær myndir í fullri lengd og það er frekar erfitt að setja þær í einhver box,“ viðurkennir Þorkell.

Þorkell og Mia Maria Hauge Wadsworth leggja á ráðin við …
Þorkell og Mia Maria Hauge Wadsworth leggja á ráðin við gerð Charming Men. Ljósmynd/Aðsend

Hann segist hafa komist lygilega langt í því að fá fólk til að vinna ókeypis við framleiðslu sína, sem ef til vill kemur ekki ýkjamikið á óvart þar sem samstarfsfólkið deili með honum áhuganum á kvikmyndum og gerð þeirra. Sumt hljómar þó ævintýralega. „Þegar ég gerði Suicide Service fékk ég leikara frá Bandaríkjunum – hann er reyndar líka leikstjóri – til að koma til Noregs gegn því að ég myndi bara borga uppihald og mat. Hann kom svo hérna og fékk herbergi hjá mér, fékk að borða og fékk að upplifa Noreg og var hérna í tvo mánuði á meðan við vorum að kvikmynda Suicide Service og allir aðrir gáfu vinnu sína. Eini kostnaðurinn þar var einhver smá tæknikostnaður og matur,“ segir Þorkell frá gerð sinnar fyrstu kvikmyndar í fullri lengd sem varð verðlaunamynd eins og fyrr segir.

„Maður er auðvitað að biðja fólk að fórna mjög miklu og stundum skil ég hreinlega ekki að þetta gangi svona vel,“ segir Þorkell kersknislega. „Fólk er að gefa gífurlega mikinn tíma en á móti kemur að við erum auðvitað að hjálpa hvert öðru. Þau hjálpa mér að búa til þessa mynd, en ég er líka að búa til mynd sem ég skila af mér og þau geta síðan vísað til. Vinni myndin til verðlauna vekur það svo athygli á þessum leikurum. Það er erfitt að komast inn í kvikmyndabransann, sérstaklega ef maður hefur enga reynslu og flestir leikarar vilja vera í mynd þar sem þeir koma vel út,“ útskýrir Þorkell samstarfið.

Þöglar myndir árið 2020

Fjölskylda hans fer engan veginn varhluta af aukavinnu föðurins enda leika börnin hans líka í myndunum. „Elsta dóttir mín er leikkona, stúderaði í Englandi,“ segir hann frá og því auðsótt mál að hún taki að sér hlutverk með föður sinn bak við myndavélina og í leikstjórastólnum.

Á Facebook-síðum kvikmynda Þorkels má sjá verðlaunaplögg frá aragrúa kvikmyndahátíða. Hvernig liggur leiðin þangað?

„Ég hef aðallega reynt að þræða hátíðir sem eru að sinna underground- eða avant-garde-kvikmyndum. Í sumar til dæmis gerði ég fjórar stuttmyndir, allar þöglar, og þær hafa hlotið býsna mörg verðlaun, til dæmis Across the River, hún hefur fengið 17 verðlaun og verið valin inn á fjórar aðrar hátíðir sem ég er ekki búinn að fá svar við,“ segir þessi farsæli kvikmyndaframleiðandi sem sannarlega bindur ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamenn.

Behsat Saka í hlutverki sínu sem Young Man (sem er …
Behsat Saka í hlutverki sínu sem Young Man (sem er nafn persónunnar) í Feces, stuttmynd frá 2020. Ljósmynd/Aðsend

Tilraunastarfsemi Þorkels virðist fá landamæri þekkja, svo sem sjá má af stuttmyndinni Security Camera þar sem áhorfandinn horfir á sex ramma í einu sem eru sjónarhorn mismunandi staðsettra öryggismyndavéla í einu og sama húsinu og gerast allar sex atburðarásirnar samtímis. „Svo brýst maður inn í húsið þar sem fjölskylda býr og við sjáum allt gerast á sama tíma í römmunum.“ Ekki virðast svo krefjandi sjónarhorn fara fyrir brjóstið á gagnrýnendum þar sem Security Camera hefur hlotið tíu verðlaun nú þegar og verið valin inn á níu hátíðir til viðbótar.

Í bígerð

Undir lok forvitnilegs spjalls við kvikmyndagerðarmanninn í Drammen verður ekki komist hjá því að inna hann eftir verkefnastöðunni þegar þetta er skrifað og því sem fram undan er.

„Ég er búinn að vera að vinna að heimildarmynd um Hauk Hilmarsson sem hvarf í Sýrlandi og ég var á leið til Sýrlands og Grikklands með móður hans þar sem ætlunin var að reyna að finna staðina þar sem síðast sást til hans og ræða við fólk þar um það sem gerðist. Svo var meiningin að flétta inn í þetta viðtölum við fólk á Íslandi og meðal annars reyna að svara spurningunni „Hver var Haukur?“ en rétt áður en þetta ferðalag átti að hefjast lokaðist allt,“ segir Þorkell frá og vísar til þess haftaástands sem heimsbyggðin hefur búið við síðasta árið og vart þarf að nefna með nafni orðið.

Þorkell bak við myndavélina við gerð heimildarmyndar sinnar um Hauk …
Þorkell bak við myndavélina við gerð heimildarmyndar sinnar um Hauk Hilmarsson. Hann var á leið til Sýrlands og Grikklands með móður Hauks þegar heimsbyggðin skall í lás. Ljósmynd/Aðsend

Önnur mynd hafi einnig verið á teikniborðinu, Great Again, hluti lífseigs vígorðs síðustu tvennra forsetakosninga vestanhafs. „Þetta er mjög kunnuglegt þema fasista,“ segir Þorkell, „að vísa til einhverrar glæstrar fortíðar og reyna svo að endurbyggja hana. Great Again fjallar um mann sem missir konu sína og börn í slysi. Hann langar til að halda jól með þeim aftur og ræður leikara sem eiga að leika börnin hans og konuna og þau mega aldrei fara úr hlutverkinu, fá bara leiðbeiningar um hvernig fólkið var sem þeim er ætlað að túlka og þannig ætlar fjölskyldufaðirinn að endurskapa hina fullkomnu fortíð. Svo fara að renna á hann tvær grímur um hvort fortíðin hafi í raun verið svona fullkomin eftir allt saman,“ útskýrir Þorkell.

Rammi úr Suicide Service sem hlaut dómnefndarverðlaun The Monkey Bread …
Rammi úr Suicide Service sem hlaut dómnefndarverðlaun The Monkey Bread Tree-hátíðarinnar árið 2017. Ljósmynd/Aðsend

Ætlunin hafi verið að gera Great Again í Bandaríkjunum fyrir tveimur árum, en þá hafi ófyrirsjáanleg atvik komið upp sem hömluðu því og Þorkell því brugðið á það ráð að hrókera verkefnum og gera fyrsta hluta þríleiksins Charming Men í staðinn.

„Þannig að ég stefni á að gera aðra atlögu að Great Again næsta vetur, því eðlilega vil ég að þetta sé jólamynd,“ segir hann og hlær. „Ég held ég nenni samt ekki að gera hana í Bandaríkjunum úr því sem komið er,“ játar hann og hyggst aukinheldur skrifa handritið aftur til að vera fullkomlega sáttur við það.

„Þangað til þessu Covid-rugli lýkur er ég að dunda mér við að klippa tvær stuttmyndir sem ég er búinn að taka plús vinna nokkur handrit fyrir myndir í fullri lengd, þar er ég með eina gamanmynd og eina nokkurs konar „sci-fi drama“,“ segir Þorkell Ágúst Óttarsson að lokum, kvikmyndagerðarmaður og leiðbeinandi fíkniefnaneytenda í Drammen í Noregi, sem sannarlega virðist hafa aðgang að fleiri stundum en þessum 24 sem við flest þekkjum.

Baksviðs við gerð Feces, einnar fjögurra stuttmynda sem Þorkell framleiddi …
Baksviðs við gerð Feces, einnar fjögurra stuttmynda sem Þorkell framleiddi Covid-árið eftirminnilega 2020. Ljósmynd/Aðsend

Handan eftirfarandi tengla má skoða Facebook-síður myndanna Charming Men Part 1 – Julie og Across the River og þau verðlaun sem þær hafa hlotið á fjölda kvikmyndahátíða og hér er listi IMDB-kvikmyndagrunnsins yfir verk Þorkels.

Hér að neðan geta áhugasamir horft á stuttmyndina The Girl and the Egg frá 2020 auk þess sem allar stuttmyndir Þorkels má finna á YouTube og Vimeo.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert