Þrennt var í bílnum

Bíll hafnaði í sjónum í Skötufirði í morgun.
Bíll hafnaði í sjónum í Skötufirði í morgun. Graf/mbl.is

Þrennt var í bílnum sem hafnaði í sjónum í Skötufirði á ellefta tímanum í morgun. Slysið er alvarlegt en unnið er að því að veita þeim aðstoð á vettvangi. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar eru að lenda á slysstað. 

Samhæfingarmiðstöð almannavarna var virkjuð vegna slyssins en tilkynning barst um umferðarslys vestan megin í Skötufirði klukkan 10:20. Rögnvaldur Ólafsson aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá al­manna­vörn­um segir að bíllinn hafi farið út af veginum og endaði úti í sjó þar sem hann hafnaði á hliðinni. Aðstæður á slysstað eru mjög erfiðar, bæði mikil hálka og eins bíllinn í sjónum.

Hann segir að vegfarendur sem komu að slysinu hafi unnið þrekvirki við að hjálpa til við að bjarga þeim úr sjónum og hlú að þeim áður en viðbragðsaðilar komu á staðinn. 

Ástand á vettvangi er að sögn Rögnvalds orðið stöðugt en aðstoð barst úr lofti, láði og legi þar sem bæði þyrlur, björgunarskip, björgunarsveitir, lögregla, slökkvi- og sjúkralið hafi tekið þátt í björgunarstarfinu við erfiðar aðstæður.

Uppfært - tilkynning frá lögreglu klukkan 12:16

Tilkynning barst til lögreglunnar á Vestfjörðum klukkan 10:16 um alvarlegt umferðarslys á Djúpvegi í vestanverðum Skötufirði. Fjölmennt lið lögreglu, sjúkraflutninga og lækna, slökkviliðs og björgunarsveita var sent á vettvang auk þess sem tvær þyrlur Landhelgisgæsunnar voru kallaðar út og sendar á vettvang. Þá var samhæfingarstöð í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð virkjuð.

Í fyrstu upplýsingum kom fram að bifreið hefði fari útaf veginum og í sjóinn og að þrennt hafi verið í bílnum. Vinna viðbragðsaðila er í gangi á vettvangi og báðar þyrlurnar komnar á staðinn. Búið er að ná fólkinu í land og komið í sjúkrabíla.

Samkvæmt upplýsingum er flughálka á veginum, lágskýjað og hægur vindur.

mbl.is