„Sáum ekkert annað en gleði í fólki“

Skíðakappar í Bláfjöllum í dag.
Skíðakappar í Bláfjöllum í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Uppselt var eftir hádegi í Bláfjöllum í dag, á fyrsta degi sem svæðið er opið frá því í vor. 

Magnús Árnason, framkvæmdastjóri Skíðasvæða höfuðborgasvæðisins, segir að vel hafi gengið að fylgja sóttvarnaráðstöfnunum og dagurinn hafi verið góður. 

„Við vorum ekki með allt opið sem við hefðum viljað vera með opið, en ég held að allir hafi verið glaðir. Það var uppselt í seinna hollinu okkar og við sáum ekkert annað en gleði í fólki. Kóngurinn var úti vegna ísingar og slæms skyggnis og veðurs uppi, en það var enginn að svekkja sig á því. Ég held að fólkið í brekkunum hafi bara áttað sig á því að það var ekki gott skyggni og var kannski fegið að vera ekki uppi,“ segir Magnús. 

„Við erum glaðir með þetta. Þetta var eiginlega framar vonum hvernig þetta gekk og hvað fólk var jákvætt. Það voru margir með grímu og það lagðist vel í fólk að það þurfti að skipta upp í holl. Eins og með annað í þessi kófi þarf maður oftar að panta sér tíma en þar sem maður kemst að hefur maður líka meira pláss,“ segir Magnús, en skíðakappar þurfa nú að kaupa miða annaðhvort fyrri eða seinni part dagsins og er deginum þannig skipt í tvennt. 

Skyggnið var ekki upp á marga fiska í dag.
Skyggnið var ekki upp á marga fiska í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Magnús segist bjartsýnn á að hægt verði að hafa svæðið áfram opið í vikunni. 

„Það kom snjór núna um helgina sem var akkúrat það sem okkur vantaði svo ég hugsa að við getum horft björtum augum inn í þessa viku. Það er dálítil vindaspá í vikunni, en úr norðri þó sem er besta áttin í Bláfjöllum.“

Magnús segir að skíðasvæðið hafi sjaldan verið opnað jafn seint á síðustu tíu árum og á þessu skíðatímabili. 

mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Við enduðum síðasta vetur á toppnum. Það var mikill snjór og fullt af fólki byrjað að stunda fjöllin, en við náðum samt áætlunum á þessum 51 degi sem var opið í fyrra og í rauninni hefðum við verið að slá einhver met ef við hefðum getað haldið áfram. Núna í vetur erum við að opna alveg í síðasta lagi ef við horfum 10 ár aftur í tímann, þetta er svona alveg innan marka. En ef það rætist úr vetrinum og við getum jafnvel haft opið út apríl verða held ég allir glaðir,“ segir Magnús og bætir við að það sé ljóst að fólk sé spennt fyrir tilbreytingu á tímum heimsfaraldurs. 

„Ég held að með hækkandi sól og snjó verði dagarnir einstaklega góðir. Við höfum verið að áætla um 2.000 manns á lokuðum dögum þegar lyfturnar eru lokaðar, bæði fyrir páska í fyrra og núna í vetur. Ef það er gott veður þráir fólk að komast út. Það er mikið af fólki á fjallaskíðum, gönguskíðum, úti að ganga með hundana sína. Fólk er þakklátt allri tilbreytingu í Covid,“ segir Magnús. 

mbl.is