Slakar kannski á eftir áttrætt

Helgi Tómasson hefur ákveðið að láta að störfum sem listrænn …
Helgi Tómasson hefur ákveðið að láta að störfum sem listrænn stjórnandi San Francisco-dansflokksins en mun ekki sitja auðum höndum enda kann hann illa við iðjuleysi. Ljósmynd/Erik Tomasson

Það var rétt farið að birta af degi í San Francisco þegar blaðamaður náði tali af Helga Tómassyni í gegnum síma. Hér var degi farið að halla og komið myrkur. Það lá vel á Helga, þrátt fyrir erfiðleika undanfarið, en hann og dansflokkur hans hafa ekki farið varhluta af veirunni skæðu. Helgi hefur nýlega tilkynnt að hann hyggist láta af störfum sem listrænn stjórnandi San Francisco-dansflokksins. Þó ekki alveg strax, því nýr stjórnandi tekur ekki við fyrr en um mitt ár 2022. Þangað til er nóg að gera en Helgi er vinnusamur með eindæmum og fellur ekki verk úr hendi, þrátt fyrir að vera að nálgast áttrætt.

Enginn dansari smitast

Það er ekki úr vegi að heyra hvaða áhrif kórónuveiran hefur haft á Helga og flokkinn hans.

„Kórónuveiran hefur haft gífurlega mikil áhrif á starf okkar, því miður. Þetta byrjaði að hafa áhrif á flokkinn strax í mars þegar við vorum að frumsýna Draum á Jónsmessunótt,“ segir Helgi og segir þá hafa verið sett stopp á allar sýningar og æfingar. Helgi segir þau hafa svo fengið leyfi til að hefja æfingar síðastliðið haust.

Helgi leiðbeinir hér dönsurunum Nikisha Fogo og Julian MacKay en …
Helgi leiðbeinir hér dönsurunum Nikisha Fogo og Julian MacKay en Helgi hefur ávallt sinnt kennslu. Ljósmynd/Erik Tomasson

„Ég er mjög stoltur af dönsurunum og það hefur enginn smitast enda fara þeir mjög varlega. Því ef einhver smitast þarf allt hólfið að fara í sóttkví og enginn vill vera sá sem veldur því,“ segir Helgi og bætir við að þessi tími hafi reynt mjög á dansara sem missa úr dýrmætan tíma af ferlinum.

Streyma ballet um heim allan

Byrjað er að selja miða á þær sýningar sem sýndar verða í streymi og segir Helgi söluna ganga mjög vel.

„Það eru margir sem sakna þess að sjá okkur dansa í óperuhúsinu og auðvitað eru þetta ekki sömu tekjur fyrir okkur. Þrátt fyrir það tekst þetta og hefur tekist,“ segir Helgi og segir að vissulega sé það ólík upplifun að horfa á ballett heima í stofu á skjánum og að sitja í sal og horfa á lifandi svið. Einn kost í slæmri stöðu má þó finna.

Helgi fagnar hér að lokinni sýningu á Svanavatninu í Borgarleikhúsinu …
Helgi fagnar hér að lokinni sýningu á Svanavatninu í Borgarleikhúsinu árið 2000. Sverrir Vilhelmsson

„Fólk sem býr ekki á svæðinu og jafnvel fólk úti um allan heim getur horft og það skiptir máli að upplifa dansverk þótt það sé ekki í leikhúsinu sjálfu. Kannski fáum við jafnvel fleiri áhorfendur.“

Þarf að hafa upp á Víkingi

Um fimm ár eru síðan Helgi samdi síðast dansverk og mögulega er það veirunni að þakka að hann tókst á við að semja nýtt verk síðasta haust. Tónlistin við verkið er píanókonsert eftir franska tónskáldið Jean-Philippe Rameau, sem uppi var á 17. og 18. öld. Helgi heillaðist mjög af tónlistinni en hann segist alltaf sækja innblástur frá tónlist þegar hann semur verk.

 „Ég uppgötvaði tónlist hans fyrir mörgum árum og hreifst mjög. Sum verk hans minna mann á Bach. Þessi píanótónlist er alveg stórkostleg og virkar á suman hátt nútímaleg. Þegar ég fann þessa tónlist fann ég upptöku þar sem Víkingur Heiðar Ólafsson spilar tónlist hans og gerir það svakalega vel. Ég notaði því tónlist þessa tónskálds sem innblástur. Það væri alveg stórkostlegt ef ég gæti svo fengið Víking Heiðar til að koma og spila á frumsýningunni eftir rúmt ár, þegar við byrjum aftur að sýna. Fyrst þarf ég að hafa upp á honum,“ segir Helgi.

„Ég er að leggja lokahönd á þennan ballett,“ segir Helgi og segist ekki vita hvort þetta verði síðasta dansverk sem hann muni semja á ferlinum.

„Það veit maður aldrei. Það gæti verið eða ekki. Ég lít ekki á það svoleiðis. Þegar ég fer frá starfinu eftir eitt og hálft ár gæti vel verið að ég myndi halda áfram að semja eitthvað fyrir skólann.“

Slakar kannski á eftir áttrætt

Blaðamanni verður að orði að árið sem hann hættir formlega, 2022, er árið sem hann verður áttræður.

„Alveg rétt, þú ert að minna mig á þetta!“ segir Helgi og hlær.

Þú ætlar sem sagt loksins að fara að slaka á eftir áttrætt?

„Það gæti verið. Ég veit ekki hvort ég kann það en mun uppgötva það þegar ég verð hættur. Ég hef venjulega alltaf eitthvað fyrir stafni. Ég var einu sinni spurður að því þegar ég kom heim til Íslands með dansara í Þjóðleikhúsið: „Hvenær ætlarðu að hætta að sprikla? Og fara að vinna almennilega vinnu?“ Svo nú ætla ég kannski að fara að hætta að sprikla, árið 2022,“ segir hann kíminn.

Þú sagðir í viðtali árið 2019 að þú hræðist iðjuleysi. Hvað ætlarðu að taka þér fyrir hendur þegar þú hættir?

„Ég veit það ekki, en veistu að á þessum kórónuveirutímum höfum við hjónin verið inni í íbúðinni okkar í marga mánuði þannig ég get sagt að ég hef upplifað iðjuleysi. En það er kannski kominn tími til að sleppa hendinni af vinnu; ég mun ekki sjá eftir þessu daglega stressi sem fylgir því að stjórna svona stórum flokki. Ég og kona mín viljum fara sem fyrst, þegar leyfi fæst og bólusetningin er komin, að heimsækja barnabörnin sem búa í Þýskalandi sem við höfum ekki séð í rúmt ár. Og svo viljum við njóta lífsins meira,“ segir Helgi og segist einnig vonast til að eyða meiri tíma á Íslandi.

Helgi og Marlene kynntust ung í New York. Þegar Helgi …
Helgi og Marlene kynntust ung í New York. Þegar Helgi fer á eftirlaun ætla þau að slaka á og njóta lífsins. Ljósmynd/Úr einkasafni

„En svo mun ég alltaf sjá um mína eigin balletta, þótt ég hætti vinnu hér. Þú sérð að ég hef eitthvað að gera,“ segir Helgi og hlær.

Einn af þeim albestu

Ferill Helga sem listræns stjórnanda hjá dansflokknum hófst árið 1985 og spannar því 36 ár.
„Ég er mjög stoltur og þetta hefur tekist alveg stórkostlega vel,“ segir Helgi þegar hann er spurður hvort hann sé ekki stoltur af ævistarfinu.

 „Þegar ég kom hingað árið 1985 var þetta ágætisflokkur en ekki neitt sérstakur. Nú er hann talinn einn af þeim albestu í heiminum. Við erum þekkt fyrir að setja upp fleiri verk en nokkur annar flokkur og erum orðin heimsfræg. Við höfum fengið stórkostlegar viðtökur víða um heim,“ segir Helgi sem ferðast hefur um heim allan með flokknum sínum. 

Hvernig verður það fyrir þig að setja flokkinn í hendur á nýjum stjórnanda?

Helgi er stoltur af ævistarfinu, enda full ástæða til. San …
Helgi er stoltur af ævistarfinu, enda full ástæða til. San Francisco-dansflokkurinn er einn af þeim bestu í heiminum í dag. mbl.is/Ásdís

„Svona er lífið. Ég er búinn að gera mitt og það hefur tekist vel. Ég get ekki kvartað yfir neinu. Nú er kominn tími á að yngri kynslóð taki við. Ekkert varir að eilífu.“

Ítarlegt viðtal við Helga er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. Lesa má það í heild sinni hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »