Dæmdur fyrir leynilega upptöku á baðherbergi

Dómurinn gekk í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Dómurinn gekk í Héraðsdómi Reykjavíkur. Mynd/mbl.is

Karlmaður hefur verið dæmdur til þriggja mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir brot gegn blygðunarsemi og barnaverndarlögum með því að hafa tekið myndskeið af ungum stúlkum skipta um föt inni á baðherbergi.

Dómurinn var kveðinn upp fimmtudaginn 14. janúar í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í dómsorði segir að maðurinn hafi stillt farsíma sínum upp inni á baðherbergi og tekip upp myndskeið af tveimur stúlkum, sem voru þar naktar eða hálfnaktar, að skipta um föt. Hafi maðurinn með háttseminni sært blygðunarsemi stúlknanna og framkvæmt ósiðlegt athæfi.

Stúlkurnar eru báðar undir lögaldri og fóru þær fram á 1 milljón króna í miskabætur. Dómurinn féllst á kröfur þeirra en lækkaði fjárhæðina niður í 300 þúsund krónur sem maðurinn þarf að greiða þeim hvorri fyrir sig.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að maðurinn játaði skýlaust brot sig og hafði ekki áður gerst sekur um refsivert brot og „jafnframt til þess hvað honum gekk til með brotinu sem beindist að tveimur ungum stúlkum.“

mbl.is