Ekkert andlát tilkynnt eftir Moderna bólusetningu

„Aukaverkanaprófíllinn var mjög svipaður og þessi bóluefni eru mjög svipuð …
„Aukaverkanaprófíllinn var mjög svipaður og þessi bóluefni eru mjög svipuð að verkun,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg forstjóri Lyfjastofnunar. AFP

16 tilkynningar um mögulegar aukaverkanir vegna bóluefnis Moderna við Covid-19 hafa borist Lyfjastofnun Íslands. Ein tilkynninganna er vegna mögulegra alvarlegra aukaverkana en engin þeirra tengist andláti. Alls hafa Lyfjastofnun borist 78 tilkynningar vegna mögulegra aukaverkana af völdum bóluefna, lang flestar tilkynninganna eru ekki alvarlegar.

Þetta segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg forstjóri Lyfjastofnunar í samtali við mbl.is. 

Alls eru tilkynningar um mögulegar aukaverkanir vegna bóluefnis Pfizer orðnar 62 talsins, þar af átta alvarlegar og af þeim sjö andlát. Landlæknir gaf það út á upplýsingafundi almannavarna í morgun að tengsl bólusetningar og andláts séu ólíkleg í fjórum tilvikum af þeim fimm sem embættið hóf rannsókn á í byrjun janúarmánaðar. Í fimmta tilvikinu var ekki hægt að segja til um or­saka­tengls með vissu. 

Vægu aukaverkanirnar komu ekki á óvart

Rúna segir að eina tilkynningin sem borist hafi vegna mögulegra alvarlegra aukaverkana í kjölfar bólusetningar með bóluefni Moderna sé líklega vegna bráðaofnæmis sem rætt hefur verið í fjölmiðlum. Hinar tilkynningarnar snerta allar hefðbundnar vægar aukaverkanir sem búast má við í kjölfar bólusetningar. 

„Það var alveg vitað og þess vegna vorum við búin að gera okkur klár í að það væri auðvelt að tilkynna til okkar með rafrænum hætti,“ segir Rúna. Um er að ræða roða á stungustað, hita- og kuldatilfinningu og aðrar vægar aukaverkanir sem stundum koma upp þegar ónæmiskerfið ræsist. 

„Það var ekkert sem kom á óvart, miðað við það sem kemur úr klínískum rannsóknum og er bara á pari við aðrar bólusetningar,“ segir Rúna. 

Graf/Lyfjastofnun

Heilbrigðisstarfsmenn vakandi fyrir því að tilkynna

Spurð hvers vegna andlátin sem tilkynnt voru í kjölfar Pfizer bólusetningarinnar hafi verið talin geta tengst bólusetningunni segir Rúna:

„Hugsanlega er þetta svolítið tímalínan. Tölurnar sem við vorum með voru að að meðaltali myndu 18 látast á hjúkrunar- og dvalarheimilum vikulega. [...] Svo eru heilbrigðisstarfsmenn náttúrulega líka vakandi fyrir því að tilkynna, það hefur verið mikil áhersla lögð á það. Þó þeim finnist ekki miklar líkur á því að þetta tengist þá tilkynna þeir.“

Rúna bendir á að fjöldi tilkynninga sé svipaður á Norðurlöndunum, þar hafi tilkynningar þó borist aðeins seinna þar sem faraldurinn stendur hærra þar. 

Bóluefnin virka á svipaðan hátt

Lyfjastofnun hefur nú sett upp vefsvæði þar sem mögulegt er að fylgjast með tilkynningum um mögulegar aukaverkanir vegna bólusetningar við Covid-19. Rúna segir mikilvægt að skoða fjölda tilkynninga með það í huga að mismunandi hópar hafi verið bólusettir með bóluefnunum og þá hafi mun fleiri verið bólusettir með bóluefni Pfizer. 

„Aukaverkanaprófíllinn var mjög svipaður og þessi bóluefni eru mjög svipuð að verkun,“ segir Rúna að lokum.

mbl.is