Hefur þungbærari áhrif en annars staðar

Kirkjan á Flateyri
Kirkjan á Flateyri Brynjar Gauti

Fjölnir Ásbjörnsson, prestur á Flateyri, segir að samfélagið sé slegið yfir slysi sem varð þar sem íbúar í bænum, pólskt par og barn þeirra, hafnaði í sjónum við Djúpaveg í vestanverðum Skötufirði á laugardag. Fjölmargir sóttu kirkjuna í gær en hún var opnuð þeim sem vildu í kjölfar slyssins. 

Búið er að staðfesta andlát konunnar, Kamilu Majewsku, en ungt barn hennar og eiginmaður eru enn undir læknishöndum í Reykjavík. Þau hafa búið á Flateyri undanfarin ár.

Fjölnir segir að talsverður fjöldi fólks hafi komið í kirkjuna sem var opnuð fyrir þá sem vildu á milli 14-16 í gær. „Ég er mjög glaður yfir því að hafa getað opnað kirkjuna,“ segir Fjölnir. Segir hann ljóst að slysið hafi snert við fólki í þessu litla samfélagi þar sem allir vita af hverjum öðrum. „Fólk kom í kirkjuna til að kveikja á kerti, ræða saman við mig eða íhuga. Það voru engin formlegheit í þessu og það var misjafnt hvernig fólk nýtti sér þetta,“ segir Fjölnir.

Fjölnir Ásbjörnsson.
Fjölnir Ásbjörnsson.

Dreifðust blessunarlega vel 

Áður hafa komið upp áföll á Flateyri og skemmst er að minnast snjóflóðsins sem féll fyrir ári síðan. Spurður telur Fjölnir að fyrir vikið hafi slys á borð við þetta þungbærari áhrif í bænum en víða annars staðar. „Ég myndi halda að það sem áður hefur gerst á Flateyri hafi áhrif þegar svona kemur upp,“ segir Fjölnir. „Flateyri er þannig að allir þekkjast eða vita af hverjum öðrum af einhverju leyti. Það er mikil samkennd og samheldni hér. Það er mín reynsla í gegnum árin,“ segir Fjölnir.

Þrennt var í bílnum sem hafnaði í sjónum í Skötufirði.
Þrennt var í bílnum sem hafnaði í sjónum í Skötufirði. Halldór Sveinbjörnsson

Hann segist hafa fundið fyrir þakklæti meðal fólks eftir að ákveðið var að opna kirkjuna. Fjölnir bendir þó á að huga þurfi að sóttvörnum og fyrir vikið þurfi að ígrunda vel hvernig samkoman var skipulögð. Blessunarlega hafi fólk dreifst vel yfir tímann sem kirkjan var opin. „Okkur er sett nokkur takmörk vegna aðstæðna, en ég held að þetta hafi verið nokkuð góð lending miðað við aðstæður,“ segir Fjölnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert