„Hvenær lifum við einhverja vissutíma?“

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ef það koma engir fjárfestar verður eignarhluturinn að sjálfsögðu ekki seldur, sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í umræðum um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka á Alþingi í dag. 

Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í umræðunum að mikil óvissa væri í íslensku efnahagslífi rétt eins og um heim allan vegna kórónuveirunnar. 

„Það er óumdeilt að það er mikil óvissa um efnahagslífið hér heima og reyndar úti um allan heim í heimsfaraldri. Stærsta atvinnugreinin, ferðaþjónustan, hefur orðið fyrir miklu tjóni þótt vonir standi til að með stuðningi ríkisins og samningum við viðskiptabanka muni flestir þeir aðilar ná sér á strik þegar heimsfaraldurinn hefur gengið yfir,“ sagði Oddný. 

„Getur ráðherra ekki tekið undir það með mér að það að selja Íslandsbanka í allri þessari óvissu auki á óvissunni enn frekar fyrir viðskiptavini bankans, einkum þá sem nú eru með lánin sín í frystingu, að með nýjum eigendum verði önnur eigendastefna ofan á við fjárhagslegu endurskipulagningu sem fram undan er? Telur ráðherra að hann geti tryggt að nýir eigendur knýi ekki fram fullar heimtur af lánum í frystingu og vanskilum og við taki sala hótela, gistiheimila, jarða og annarra eigna úti um allt land þegar heimsfaraldurinn er genginn yfir?“ spurði Oddný. 

Í andsvari sínu sagði Bjarni að vissulega væru uppi óvissutímar. 

„En hvenær lifum við einhverja vissutíma? Kannski gerðum við það, við héldum það kannski fyrir ári síðan, einmitt fyrir réttu ári síðan. Þá héldum við að við værum að sigla lygnan sjó og það væri bara bjart fram undan en skyndilega kom kórónuveirufaraldur. Óvissan sem er uppi núna er ekkert yfirþyrmandi. Við erum komin með bóluefni og það sér fyrir endann á þessari krísu,“ sagði Bjarni. 

Telur áhuga vera fyrir Íslandsbanka hér á landi

Oddný sagði þá að hugsa þyrfti heildstætt um framtíðareignarhald bankanna og er Íslandsbanki yrði seldur þá ætti það að vera til erlends aðila með reynslu af bankarekstri. 

„Nú á að skrá bankann aðeins á innanlandsmarkað. Hverjir eru líklegir kaupendur að bankanum? Verða það lífeyrissjóðirnir sem verða þá eigendur að Íslandsbanka eins og Arion banka, eru viðskiptavinir bankanna og eru jafnframt keppinautar þeirra á lánamarkaði? Samkeppniseftirlitið mun líklega gera athugasemdir við það að hafa lífeyrissjóðanna allt í kringum borðið. Hverjir aðrir gætu það verið? Veit ráðherra hvaða fjársterku innlendu aðilar  það eru sem eru með nægilegt laust fé til að kaupa hlut í bankanum á verði sem ásættanlegt er?“ spurði Oddný. 

Við því sagði Bjarni: 

„Ef það koma engir fjárfestar verður eignarhluturinn að sjálfsögðu ekki seldur. Við höfum trú á því að á Íslandi sé nægur áhugi, nægt fjármagn, áhugi lífeyrissjóða og annarra fjárfesta sem hafa sýnt sig í öðrum útboðum á undanförnu ári til þess að tryggja farsæla skráningu og sölu á þessum eignarhlut.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert