Íslenska óperan vísar ásökunum á bug

Mynd frá Ragnheiði sem Íslenska óperan sýndi.
Mynd frá Ragnheiði sem Íslenska óperan sýndi. Mynd/mbl.is

Stjórn Íslensku óperunnar ber fullt traust til starfandi óperustjóra, Steinunnar Birnu Ragnarsdóttur, og segir ásakanir sem komið hafa fram á hendur henni ekki eiga við rök að styðjast. Þá áréttar stjórnin að hvorki kjarasamningar né lög um vinnuvernd hafi verið brotin í tengslum við uppsetninguna á sýningunni Brúðkaupi Fígarós árið 2019.

Fyrir viku, mánudaginn 11. janúar, sendi félagsfundur Klassís, Fagfélags klassískra söngvara á Íslandi, frá sér yfirlýsingu þar sem vantrausti var lýst á stjórn Íslensku óperunnar og Steinunni Birnu vegna stjórnunarhátta á undanförnum árum.

Þessu hafnar stjórn ÍÓ í yfirlýsingu sem barst fjölmiðlum fyrr í dag. Þar segir að þróttmikil og opinská umræða sé öllum menningarstofnunum mikilvæg og eðlilegt að skiptar skoðanir séu um áherslur hverju sinni. Enginn listamaður sé útilokaður frá því að taka þátt í sýningum Óperunnar vegna þátttöku í umræðu um hana.

„Þá vill Óperan taka fram að meint launamismunun milli kynja hjá Óperunni á ekki við rök að styðjast. Laun eru ákvörðuð í frjálsum samningum út frá stærð hlutverka og sviðsreynslu hvers söngvara. Stjórnin telur afar mikilvægt að söngvarar og stjórnendur Íslensku óperunnar nái saman um hver sé farsælasta aðferðin við gerð samninga um söng á hennar vegum. Íslenska óperan hyggst bjóða FÍH til viðræðna um kjaramál söngvara sem fram koma í sýningum Óperunnar. Vonast er til að viðræðurnar geti stuðlað að samkomulagi um ráðningarmál söngvara sem báðir aðilar geti verið sáttir við,“ segir í yfirlýsingu ÍÓ.

Vilja stofna þjóðaróperu

Í ljósi fréttaflutnings af málefnum Íslensku óperunnar og umræðum um kjaramál óperusöngvara og annarra listamanna sendi Bandalag íslenskra listamanna frá sér yfirlýsingu í dag. Stjórn BÍL telur að stjórnvöldum beri að búa óperustarfsemi á Íslandi sömu umgjörð og rekstrarskilyrði og öðrum opinberum sviðslistastofnunum. Telur stjórnin að það verði einungis tryggt með því að stofna þjóðaróperu með stoð í lögum um sviðslistir nr. 165/2019.

„Stjórn BÍL er þess sannfærð að stofnun þjóðaróperu yrði mikið gæfuspor sem tryggt geti heilbrigt starfsumhverfi fyrir óperusöngvara og aðra listamenn sem koma að óperuflutningi á Íslandi,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni, sem Erling Jóhannesson, forseti Bandalags íslenskra listamanna, ritar undir.

mbl.is