Segir sölu vanskilalána ekki hafa komið til greina

Katrín Jakobsdóttir á fyrsta þingfundi ársins.
Katrín Jakobsdóttir á fyrsta þingfundi ársins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, lýsir  yfir áhyggjum sínum af því að innleiddur verði „bandaríski stílinn“ hér landi þar sem lán í vanskilum verði seld til innheimtufyrirtækja á hrakvirði við væntanlega sölu ríkisins á fjórðungshluta í Íslandsbanka. 

„Nauðsynlegt er að fá álit forsætisráðherra á máli sem tengist sölunni og verður að teljast alvarlegt. Í viðbótargögnum sem fjárlaganefnd fékk frá Bankasýslunni er kafli sem ber yfirskriftina Sala rekstrareininga Íslandsbanka. Þar segir Bankasýslan að eftir að hafa fundað með Íslandsbanka séu veigamikil rök fyrir því að Íslandsbanki selji frá sér vanskilaútlán áður en bankinn verður seldur. Í júní síðastliðnum voru vanskilalán um 27 milljarðar króna,“ sagði Birgir í upphafi fyrirspurnar sinnar til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi. Sala ríkisins á Íslandsbanka er til umræðu á Alþingi í dag. 

„Er það virkilega rætt hjá ríkisbanka að lántaki, fólk og fyrirtæki, ekki síst í ferðaþjónustu, þurfi að eiga við eitthvert innheimtufyrirtæki úti í bæ um endurskipulagningu lána sinna? Á að innleiða hér bandaríska stílinn þar sem lán í vanskilum eru seld til innheimtufyrirtækja á hrakvirði og þessi fyrirtæki herja á skuldarana fram á grafarbakkann? Eru stjórnendur ríkisbanka, opinber stofnun eins og Bankasýslan sem heyrir undir fjármálaráðherra, virkilega að leggja til að það verði innheimtufyrirtæki úti í bæ, hrægammar, sem fái að hamast á fólki og fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir vanskilum vegna veirufaraldursins?“ spurði Birgir Katrínu. 

Í andsvari sínu sagði Katrín að Birgir vitnaði þarna til viðbótargagna sem komið höfðu á borð fjárlaganefndar frá Bankasýslu ríkisins og gefur til kynna að Bankasýslan leggi til að vanskilalán verði seld sérstaklega út úr Íslandsbanka. Það sé ekki hluti af þeirri tillögu sem hefur verið á borði fjármálaráðherra sem snýst einfaldlega um að skrá fjórðungshlut Íslandsbanka á markað með opnum og gagnsæjum hætti.

Katrín sagðist ekki hafa séð umrædd gögn, „en eins og þetta hefur horft við mér og minni hreyfingu, því að hann kallar eftir afstöðu okkar, þá höfum við markað okkur stefnu hvað varðar málefni fjármálakerfisins. Við höfum lagt ríka áherslu á það að varnarlínan verði dregin um fjárfestingarbankastarfsemi eins og það frumvarp sem nú er til þinglegrar meðferðar gerir ráð fyrir og ég vonast til að Alþingi muni ljúka afgreiðslu þess. Við höfum enn fremur markað okkur stefnu um að Landsbanki Íslands skuli áfram vera í eigu þjóðarinnar, í eigu ríkisins, og þá áherslu má sjá endurspeglast í endurskoðaðri eigendastefnu ríkisins og við teljum það geta verið skynsamlegt að selja hlut í Íslandsbanka svo fremi sem það sé gert með þessum opna og gagnsæja hætti eins og hér er lagt til og þar sé fyllsta jafnræðis gætt,“ sagði Katrín. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert