Sóttvarnabrot á veitingastað með fjölda gesta

Lögreglumenn að störfum.
Lögreglumenn að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sóttvarnabrot átti sér stað á veitingastað í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í Kópavogi og Breiðholti um sexleytið í gær. Þar voru á fimmta tug gesta að horfa á íþróttaviðburð í sjónvarpi.

Lögreglumenn settu út á fjarlægðarmörk milli borða, óskýr mörk milli hólfa á staðnum, skort á sprittbrúsum og grímuleysi gesta.

Þriggja bíla árekstur varð á Reykjanesbraut á ellefta tímanum í gærkvöldi. Engin slys urðu á fólki.

Á áttunda tímanum var tilkynnt um þjófnað í verslun í umdæmi lögreglunnar í Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ. Ekkert kemur frekar fram um það í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Líkamsárás í heimahúsi

Upp úr klukkan hálfsex var tilkynnt um líkamsárás í heimahúsi í umdæmi lögreglunnar í Austurbæ, miðbæ, Vesturbæ og á Seltjarnarnesi. Lögreglan fór á vettvang og ræddi við báða málsaðila.

Tilkynnt var um innbrot í fyrirtæki í hverfi 108 laust fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi. Innbrotsþjófurinn komst í skiptimynt í sjóðsvél.

Á fimmta tímanum í nótt var tilkynnt um mann að reyna að brjóta sér leið inn í fyrirtæki í miðbæ Reykjavíkur. Maðurinn gafst upp og kom sér í burtu. Lögreglumenn handtóku hann skammt frá vettvangi. Maðurinn var vistaður í fangaklefa.

mbl.is