Tekist á um sóttvarnalög í velferðarnefnd

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Ólafur Þór Gunnarsson þingmaður vinstri grænna …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Ólafur Þór Gunnarsson þingmaður vinstri grænna á góðri stundu. mbl.is/Hari

Átakalínur teiknast nú upp vegna afgreiðslu á frumvarpi heilbrigðisráðherra til breytinga á sóttvarnalögum. Frumvarpið er nú til umfjöllunar í velferðarnefnd Alþingis.

Ólafur Þór Gunnarsson, varaformaður velferðarnefndar og þingmaður vinstrihreyfingarinnar græns farmboðs, segir vinnu nefndarinnar við frumvarpið ganga vel. 

„Vinnunni miðar áfram og það hafa komið fram mörg gagnleg og góð sjónarmið sem nefndin mun fara vel yfir. Ég bind vonir við að við klárum þetta mál bráðlega. Þetta mál er í forgangi, það liggur fyrir að m.a. vega ábendinga Páls Hreinssonar, þá eru ýmis atriði sem í þessum lögum sem þarf að setja styrkari stoðir undir,“ segir Ólafur Þór í samtali við mbl.is.

Ólafur er framsögumaður málsins sem er lagt fram af flokkssystur hans. Þannig kemur það í hans hlut innan nefndarinnar að lóðsa málið í gegnum nefndina svo að það komi til afgreiðslu í þinginu.  

Staldrað við útgöngubann og skyldubólusetningu 

Sara Elísa Þórðardóttir er varaþingmaður Pírata, sem nú vermir sæti Halldóru Mogensen sem er í barneignarleyfi. Hún segir útilokað að afgreiða málið á sinni vakt með ákvæði sem heimili útgöngubann og skyldu til bólusetningar. 

Sara Elísa segir útgöngubann vera verulega skerðingu mannréttindum og bendir á að heimilisofbeldi hefur aukist verulega í þeim löndum sem útgöngubanni hefur verið beitt. Einnig segir Sara ákvæði um skyldu til bólusetningar sem finna má í fyrirliggjandi frumvarpi algjörlega ótækt og að það stangist á við stjórnarskrárvarinn rétt til að hafna læknismeðferð. 

„Strax og frumvarpið kom fram lagði ég fram breytingatillögu um að útgöngubannsákvæðið yrði tekið út,“ segir Sara Elísa. Þá segir hún að meirihlutinn hafi skipt um skoðun á þörfinni fyrir að afgreiða málið hratt.

„Ekki séns, að ég samþykki það að þessu sé drifið í gegnum þingið af því að meirihlutinn sé búinn að mála sig út í horn,“ bætti hún við.

Sara segir fyrirliggjandi frumvarp meingallað sem þarfnist meiri vinnu og að hún geti ekki fellt sig við að það verði afgreitt óbreytt. 

Óeining um málið 

Samkvæmt heimildum mbl.is er nokkur andstaða innan stjórnarandstöðunnar við ákvæðin sem hér eru nefnd. Þá eru sjálfstæðismenn ekki á eitt sáttir við öll ákvæði frumvarpsins.

Þá herma heimildir mbl.is að rætt sé um að fella út heimildir til útgöngubanns og skyldubólusetningu til að ná sáttum um málið á þingi. 

Uppfært kl. 19:45: 

Helga Vala Helgadóttir formaður velferðarnefndar vill koma því á framfæri að stjórnarandstaðan stendur ekki saman í andstöðu gegn í þessum ákvæðum sem nefnd eru í fréttinni og Samfylkingin hefur ekki lagst gegn þessum ákvæðum né öðrum. Hún segir málið í vinnslu í velferðarnefnd og gengur vinnan í nefndinni vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert