„Alþekkt biðlistablæti ríkisstjórnarinnar“

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Arnþór

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, sagði alþekkt biðlistablæti ríkisstjórnarinnar hafa tekið á sig nýja mynd á dögunum þegar fréttir bárust af tvöþúsund leghálssýnum sem liggja ógreind í biðröð ofan í kjallara.

Hanna Katrín fjallaði um biðlista í heilbrigðiskerfinu og afleiðingar þess undir liðnum störfum þingsins á Alþingi í dag. 

Kona á bak við hvert sýni

Á bak við þau sýni eru 2.000 konur sem bíða frétta af því hvort sýnin eru jákvæð eða neikvæð. Frumubreytingar eða ekki. Krabbamein eða ekki. Tvö þúsund konur,“ sagði Hanna Katrín um sýnin í kjallaranum.

Hanna Katrín segir ástæðuna fyrir þessari bið, sem og öðrum biðlistum í heilbrigðiskerfinu vera vantraust ríkisstjórnarinnar til sjálfstætt starfandi sérfræðinga. 

„Leghálssýnin á sem sagt að senda til útlanda. Biðlistinn er tilkominn af því að enn er ekki búið að semja við þennan einhvern úti í útlöndum sem á nú að taka við keflinu af íslenskri frumurannsóknarstöð sem til staðar hefur verið.  Eftir situr hámenntað og sérhæft fólk án vinnu,  sérfræðingar sem ekki fékk boð um starf hjá ríkinu þegar þjónustan fór þangað um áramót,“ bætti Hanna Katrín við.

Hanna segir þetta stangast á við yfirlýstar áhyggjur fjármálaráðherra yfir atvinnuleysi og segir ríkisstjórnina flytja heilbrigðisþjónustu úr landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert